„Ég er að koma heim til Íslands“

„Ég er að koma heim til Íslands,“ segir Isaac.
„Ég er að koma heim til Íslands,“ segir Isaac. mbl.is/Hákon

„Um leið og ég er búinn að fá vegabréfsáritunina kem ég aftur heim til Íslands,“ segir Isaac Kwateng, vallarstjóri Þróttar, í samtali við mbl.is.

Isaac kom hingað til lands árið 2017 og sótti þá um alþjóðlega vernd. Um miðjan októ­ber var hon­um síðan vísað úr landi, til Gana, eft­ir sex ára bið og óvissu hérlendis. Isaac lítur á Ísland sem heimaland sitt og því sótti hann um atvinnu- og dvalarleyfi hér á landi til þess að komast „aftur heim“.

Umsókn hans um atvinnu- og dvalarleyfi var samþykkt í gær og því heldur Isaac til Íslands á allra næstu dögum, eða þegar hann hefur fengið staðfesta vegabréfsáritun. 

Hefur lagt kapp á íslenskuna

„Ég er að koma heim til Íslands,“ segir Isaac við blaðamann í upphafi samtalsins. 

Hann bindur miklar vonir við að fá staðfesta vegabréfsáritun í þessari viku til þess að komast hingað sem fyrst.

„Ég verð að vera kominn fyrir 21. nóvember,“ segir hann því þá hyggst hann taka íslenskupróf til þess að geta fengið íslenskan ríkisborgararétt. En áður en Isaac var sendur úr landi hafði hann lagt inn umsókn um ríkisborgararétt til Alþingis. 

Isaac hefur ekki setið auðum höndum í Gana því hann hefur lagt mikið kapp á að ná tökum á íslenskunni, með góðri aðstoð í gegnum netið frá Aldísi Guðbrandsdóttur, kennara í Langholtsskóla og Þróttara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert