Landrisið við Þorbjörn á Reykjanesskaga heldur áfram á sama hraða. Nýjasta gervitunglamyndin, sem tekin var í gærkvöldi, sýnir 5-6 sentimetra aflögun á 12 daga tímabili með miðju norðvestan við Þorbjörn.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands.
Sama aflögunarmerki sést á GPS-mælingum á svæðinu og nýjustu GPS-mælingar frá því í morgun sýna að hraði aflögunarinnar er svipaður síðustu daga.
Kvikuinnskot er á um fjögurra kílómetra dýpi norðvestan við Þorbjörn og er staðsetning kvikunnar óbreytt frá því í gær þegar vart var við kvikuhreyfingar á svæðinu.
Þá um morguninn hófst ör skjálftavirkni sem var merki um kvikuhlaup og stóð það yfir í um 2 klukkustundir. Nýjustu gögn gefa ekki til kynna að kvika sé að brjóta sér leið grynnra í jarðskorpunni en staðan getur hins vegar breyst hratt.
Eins og mbl.is greindi frá fyrir hádegi hafa um 500 skjálftar mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti. Virknin hefur færst vestar, við Eldvörp. Er það um 3 kílómetrum vestan við Þorbjörn.
Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að gera megi ráð fyrir að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og að skjálftar yfir 4 að stærð gætu fundist í byggð.
Einnig má gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Segir að það sé líkleg útskýring á jarðskjálftavirkni nærri Eldvörpum í dag.