Landsmenn synda hringi í kringum Ísland

Við setningarathöfn átaksins í Sundlaug Kópavogs í dag.
Við setningarathöfn átaksins í Sundlaug Kópavogs í dag. Ljósmynd/Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands

Syndum, landsátak í sundi, var ræst með formlegum hætti í Sundlaug Kópavogs í morgun en markmið átaksins er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig meira í daglegu lífi. 

Geta þátttakendur átaksins skráð þá metra sem þeir synda, en metrar landsmanna safnast saman á forsíðu Syndum.is og þar verður hægt að sjá hversu marga hringi landsmenn hafa synt í kringum Ísland.

Þátttakendur eiga einnig möguleika á að vera dregnir út og hljóta vinninga. 

Tengja átakið við Ólympíuleikana í París

Þett er í þriðja sinn sem ráðist er í átakið, en í ár er ætlunin að setja kastljós á skólasund grunnskóla og tengja það við Ólympíuleikana í París 2024.

Tveir fulltrúar Sundsambandsins halda á Ólympíuleikana í París á næsta ári, þau Anton Sveinn Mckee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir. Leiðin til Parísar frá Íslandi er 2.246 km og ætlunin er að fá grunnskólanemendur í skólasundi til að synda því sem samsvarar leiðinni til Parísar. 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir átakinu í samstarfi við Sundsamband Íslands en ávörp við setningu átaksins fluttu Hafsteinn Pálsson, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, Björn Sigurðsson, formaður Sundsambands Íslands, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert