„Við verðum að bregðast við"

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist bjartsýn að frumvarp um breytingar á …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist bjartsýn að frumvarp um breytingar á lögreglulögum nái fram að ganga. mbl.is/Sigurður Bogi

„Markmið þessa frumvarps er að skýra heimildir lögreglu til afbrotavarna. Mín ábyrgð sem dómsmálaráðherra er að tryggja að löggæsla í landinu sé í stakk búin til að takast á við flóknar áskoranir og breyttar aðstæður í töluvert breyttum heimi,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra spurð að því í samtali við mbl.is af hverju sé nauðsynlegt núna að breyta lögreglulögum og hvort það sé af því að menn hafi áhyggjur af þeirri stöðu sem uppi sé í landinu.

Drög að frum­varpi um breyt­ing­ar á lög­reglu­lög­um var birt í samráðsgátt í gær. Með frum­varp­inu eru lagðar til breyt­ing­ar á lög­reglu­lög­um til að að skýra og efla heim­ild­ir lög­reglu til aðgerða í þágu af­brota­varna, einkum hvað varðar skipu­lagða brot­a­starf­semi og ör­yggi rík­is­ins.

„Löggæsla í dag er mjög frábrugðin því sem hún var fyrir kannski tíu til tuttugu árum. Þannig að við getum ekki notað sömu aðferðafræði og við vorum að nota þá. Þá er ég að horfa til þróunar skipulagðrar glæpastarfsemi, hún er að aukast með þeim hætti að við verðum að bregðast við.“

Breytt sviðsmynd

Segir hún breyttar áskoranir lögreglu vera nú á ólíkum sviðum og allt aðrar en á árum áður.

„Við erum að veita lögreglu heimildir til að fara í ákveðnar aðgerðir til varnar afbrotum en þá erum við að horfa á almennar afbrotavarnir, skipulagða brotastarfsemi og svo öryggi ríkisins og ógnir gegn ríkinu og þar með að vernda borgarana.“

Spurð að því hvernig aukið eftirlit sé hugsað sem og heimildir lögreglu til að grípa fyrr inn í atburðarás og koma í veg fyrir afbrot segir Guðrún það fyrst og síðast felast í gagnaöflun.

„Við erum að veita lögreglunni auknar heimildir til gagnaöflunar og gagnavinnslu og svo til miðlunar gagna.“

Vísar hún þá aftur í skipulagða brotastarfsemi sem hún segir í dag vera með þeim hætti að hún fari um víðan völl, þvert á landamæri. 

„Við verðum að geta veitt lögreglu heimildir til að afla upplýsinga, þá er ég að tala um gagnaöflun, vinna úr þeim og svo miðla þeim. Þá verðum við að vera með sambærilegt regluverk hér og í löndunum í kringum okkur, og við erum með það að mestu leyti, en þarna erum við sérstaklega vegna breyttra áskorana lögreglu að skýra heimildir hennar til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna og til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi.“

Vilja vernda ríkið og borgarana

Innt eftir því hvert við séum að horfa í þessum efnum og hvort við séum með einhverja fyrirmynd segir hún svo ekki vera. 

„Við erum fyrst og síðast að horfa á öryggi ríkisins, öryggi borgaranna og þegar ég tala til dæmis um skipulagða glæpastarfsemi þá erum við að horfa á fíkniefnainnflutning, mansal og við erum að horfa á það að geta upprætt til dæmis barnaníð en allt sem ég hef nefnt núna er skipulögð glæpastarfsemi sem er í gangi á okkar landi.“

Guðrún tekur fram að á sama tíma og hún sé að óska eftir þessu frumvarpi, að lögreglan fái auknar heimildir til afbrotavarna, verði eftirlit með lögreglunni aukið, bæði innra og ytra eftirlit.

„Við ætlum ekki að veita lögreglu þessar heimildir án þess að hinum megin á teningnum sé líka aukið eftirlit með þessum auknu heimildum lögreglu sem ég tel nauðsynlegt að lögreglan fái. Lögreglan þarf þá að koma fyrir þingnefnd Alþingis og svara því hvernig þeir hafa beitt þessum heimildum og unnið með þær og hvaða árangri við höfum þá náð á sama tíma.“ 

Alvarleg staða uppi

Að sögn Guðrúnar er staðan hér á landi sú að verið er að berjast gegn alvarlegum ofbeldisbrotum, þjófnaði, fjársvikum, fíkniefnabrotum, mansali, barnaníð og peningaþvætti.

„Við eigum dæmi um öll þessi brot í okkar landi sem ég er búin að nefna hér. Ég ætla því að ítreka skyldu mína sem ráðherra, og vera yfir lögreglunni hér, það er að tryggja að lögreglan í landinu sé í stakk búin til að takast á við þessi verkefni,“ segir hún og bætir við spurð út í það hvort mannskapur lögreglunnar sé nægur að alltaf megi bæta í hópinn.

„Við höfum verið að fjölga í lögreglunni og við höfum einmitt verið að fjölga lögreglumönnum til að sinna skipulagðri brotastarfsemi en vitaskuld myndum við vilja hafa fleiri. Ég held að það sé alveg sama við hvaða lögreglu þú talar að það myndu allir vilja hafa fleiri lögreglumenn. Ég myndi vilja hafa fleiri lögreglumenn, það er ekkert launungamál.

Samt sem áður höfum við náð að styrkja lögregluna, ekki bara í mannafla heldur líka tæknilega og tækjalega séð sem er mjög gott. Þetta er nú eitt af þeim málum sem ég lagði áherslu á þegar ég kom hér í embættið, að styrkja og efla lögregluna í landinu og þetta frumvarp er einn liður í því.“

Aukin vá í kringum okkur

Í frum­varp­inu er kveðið á um afar tak­markaða heim­ild lög­reglu til að grípa til beit­ingu þving­unar­úr­ræða í af­brota­varna­skyni og segir Guðrún það eiga við alvarlegustu brotin.

„Það er bara í alvarlegustu hluta brota en ég legg áherslu á að við erum með þessu frumvarpi fyrst og fremst að horfa til afbrotavarna. Það er aukin vá í löndunum í kringum okkur, það er aukin hryðjuverkaógn og öll ríki Evrópu eru nú að hækka viðvörunarstig sitt hvað varðar hryðjuverkaógn,“ segir hún en spurð í framhaldinu hvort þörf sé á að hækka viðvörunarstigið hér á landi, en við erum nú á þriðja stigi, segir Guðrún að það verði bara metið. 

„Það hafa einhver ríki farið núna yfir á stig fjögur og við auðvitað metum það með lögreglunni og ríkislögreglustjóra og erum mjög vakandi yfir stöðunni. Við viljum geta barist gegn þessum brotum sem eru annars eðlis en almenn löggæsla.“ 

Frumvarpið betra nú en áður

Frum­varpið var lagt fram á síðasta lög­gjaf­arþingi en náði þá ekki fram að ganga. Frum­varpið, með breyt­ing­um, var því lagt fram til um­sagn­ar í sam­ráðsgátt á ný í gær og segist Guðrún  bjartsýn á að það nái fram að ganga að þessu sinni. 

„Ég legg áherslu á að það nái fram að ganga en á sama tíma, af því að þetta var lagt fram á síðasta þingi og náði ekki fram að ganga, að þá er ég þeirrar skoðunar að það að frumvarpið hafi farið til þinglegrar meðferðar á síðasta þingi er mjög jákvætt skref og kannski valdið því að okkur hefur núna gefist svigrúm til að koma til móts við þær athugasemdir sem þar voru nefndar og við erum að mæta þeim athugasemdum í þessu frumvarpi. Að því leytinu til tel ég frumvarpið vera betra núna heldur en það var,“ segir hún og bætir við að lokum að hún sé spennt að málið fari nú til þinglegrar meðferðar en hún bíður nú umsagna. 

„Það er gert til að vinna málið vel, þannig að þegar endanlegt frumvarp fer til þingsins þá vil ég að frumvarpið sé vel skrifað og búið sé að taka til helstu athugasemda. Síðan legg ég það til vinnslu þingsins.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert