Ólafur E. Jóhannsson
Matvælastofnun og yfirdýralæknir hafa lagt til að gildandi reglugerð sem kveður á um að allar kindur verði skornar niður á bæjum þar sem riðusmit greinist verði breytt í þá veru að aðeins verði skylt að skera niður hluta fjárstofnsins en ekki allt féð.
Til tíðinda bar í síðustu viku að riða greindist í einni kind frá bænum Stórhóli í Húnaþingi vestra og kom það sérfræðingum ekki á óvart þar sem riða hefur verið þrálát á svæðinu og varnarlínur á svæðinu eru ekki í góðu standi. Þetta landsvæði er þekkt riðusvæði, en fyrir tveimur árum kom riða upp á tveimur bæjum í nágrenninu og á einum bæ árið 2015.
Jörðin tilheyrir Húnahólfi, en fjögur tilvik riðu hafa síðustu sjö árin greinst í Miðfjarðarhólfi, Húnahólfi, Skagahólfi og Vatnsneshólfi, en hólfin deila varnarlínu.
Á Stórhóli eru 600 fjár og eru vonir bundnar við að ekki verði nauðsynlegt að fella alla hjörðina, en til þess þarf að breyta reglugerð sem svo mælir fyrir um.
„Núgildandi reglugerð setur yfirdýralækni þær skorður að honum ber að leggja til niðurskurð á allri hjörðinni. Núna, þegar við erum komin með einstaklinga sem bera verndandi arfgerðir, þá þarf að breyta reglugerðinni þannig að mögulegt sé fyrir mig að leggja til að aðeins hluti hjarðarinnar verði skorinn og ekki séu skornir gripir sem bera í sér verndandi arfgerðir,“ segir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir í samtali við Morgunblaðið.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.