Jarðskjálftavirkni við Þorbjörn minnkaði í nótt og hefur að mestu legið niðri það sem af er degi. Í nótt færðist virknin vestur í Eldvörp og var mikil þar í um tvær klukkustundir.
Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að um 500 skjálftar hafi mælst frá miðnætti og að það sé álíka mikil virkni og undanfarna daga.
Virknin hefur haldið áfram í Eldvörpum fram eftir morgni og einnig austan við Grindavíkurveg.
Stærsti skjálfti frá miðnætti mældist 3,7 að stærð og varð hann rétt fyrir klukkan eitt. Upptök hans voru 4,6 km norðvestur af Grindavík, við Eldvörp.