Viðhorf Íslendinga til fíkniefnalagabrota annars vegar og ofbeldisbrota hins vegar hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár.
Þannig hafa áhyggjur Íslendinga af fíkniefnalagabrotum minnkað og telja nú mun fleiri ofbeldisbrot vera mesta vandamálið á Íslandi.
Þetta sýna niðurstöður þjóðmálakannana Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá síðustu árum. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við HÍ, er einn af þeim sem stóðu að baki könnununum en hann mun kynna niðurstöðurnar ásamt Jónasi Orra Jónassyni, sérfræðingi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á ráðstefnu Þjóðarspegilsins á morgun.
Í könnunum sem framkvæmdar voru árin 1989, 2002, 2012 og 2019, þar sem þátttakendur voru spurðir hvaða afbrot þeir teldu mesta vandamálið hér á landi, svöruðu flestir fíkniefnaneysla og fíkniefnabrot. Aðrir svarmöguleikar voru kynferðisbrot, þjófnaður/innbrot, efnahagsbrot/fjársvik og ofbeldi/líkamsárásir.
Í mælingunni sem framkvæmd var í sumar töldu aftur á móti 20% svarenda fíkniefnaneyslu og fíkniefnalagabrot vera mesta vandamálið. Þá sögðu 4% þjófnað og innbrot vera mesta vandamálið, 22% sögðu efnahagsbrot, 24% sögðu kynferðisbrot og 29% sögðu ofbeldi og líkamsárásir.
Þess má geta að í fyrri könnunum höfðu svarendur mun minni áhyggjur af ofbeldisbrotum í samanburði við önnur afbrot.
Árið 1989 töldu 14% svarenda ofbeldisbrot mesta vandamálið, árið 2002 var hlutfallið 15%, árið 2012 var það 13% og árið 2019 var það komið niður í 6%.
„Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þessari þróun. Ef við tökum 20. öldina og framan af 21. öldinni, þá eru það fíkniefni sem eru fyrst og fremst sá vandi sem menn óttast. […] Nú á allra síðustu misserum hefur fókusinn verið að færast yfir á ofbeldisbrotin. Það er endurspeglun á því sem hefur verið að gerast í samfélaginu,“ segir Helgi og tekur sem dæmi alvarleg manndrápsmál á borð við Rauðagerðismálið, aukinn hnífaburð, hópamyndanir og Bankastrætis club-málið.
„Þetta er raunveruleg breyting sem er að eiga sér stað – við höfum áhyggjur af þessari ofbeldisþróun.“
Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út á mánudaginn.