Eiríkur Haraldsson, fv. kennari við Menntaskólann í Reykjavík, lést sunnudaginn 29. október síðastliðinn, 92 ára að aldri.
Eiríkur fæddist í Vestmannaeyjum 12. mars 1931, sonur hjónanna Solveigar Soffíu Jesdóttur yfirhjúkrunarkonu og Haraldar Eiríkssonar rafvirkjameistara. Bræður hans voru Hörður Haraldsson, viðskiptafræðingur, listmálari og kennari við Háskólann á Bifröst, og Ágúst Pétur Haraldsson véltæknifræðingur.
Eiríkur ólst upp í Vestmannaeyjum, en fjölskyldan flutti til Reykjavíkur svo að þeir bræðurnir gætu tekið landspróf þar og gengið menntaveginn. Samhliða menntaskólanámi lagði Eiríkur stund á myndlistarnám hjá Aage Edwin myndhöggvara 1947-1953. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951. Sama ár setti hann Íslandsmet í 3.000 metra hindrunarhlaupi. Eiríkur keppti fyrir Íslands hönd í frjálsum íþróttum á erlendri grundu. Hann lauk BA-námi í þýsku frá Háskóla Íslands, stundaði íþróttakennaranám á Laugarvatni og nam íþróttafræði við íþróttakennaraháskólann í Köln 1953-1956.
Eiríkur kenndi við Héraðsskólann á Laugarvatni, var kennari í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1956-1958 og kenndi í Menntaskólanum í Reykjavík frá 1956-2001, þar sem hann kenndi bæði íþróttir og þýsku. Einnig handskrifaði hann öll stúdentsskírteini fyrir MR í áratugi.
Eiríkur var einn af stofnendum Skíðaskólans í Kerlingarfjöllum 1961. Hann var ráðgjafi fyrir samgönguráðuneytið í skíðamálum 1972-1973 og formaður Íþróttakennarafélags Íslands í tvö ár. Eiríkur var listrænn, teiknaði mikið og málaði vatnslitamyndir og hélt sýningu á verkum sínum 1967. Hann hélt áfram að sinna þessu áhugamáli alla ævi. Eiríkur var í hópi kennara sem sömdu kennslubækur í þýsku.
Eiríkur giftist eftirlifandi eiginkonu sinni Hildi Karlsdóttur árið 1957 og eignuðust þau fjögur börn; Karl matreiðslumann, Sólveigu matarhönnuð, Harald veðurfræðing og Eirík tækniráðgjafa.