Byssumaður gengur laus eftir skotárás í Úlfarsárdal

Fyrir utan húsið í dag mátti sjá blóðdropa.
Fyrir utan húsið í dag mátti sjá blóðdropa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú skotárás sem átti sér stað í Úlfarsárdal í Reykjavík í nótt, en tilkynning um málið barst lögreglu klukkan 4.54.

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni segir að skotið hafi verið á karlmann við hús í hverfinu og var hann fluttur á Landspítalann til aðhlynningar.

Líðan mannsins er sögð eftir atvikum, en hann er ekki í lífshættu.

Skotárásin átti sér stað við Silfratjörn 2 í Úlfarsárdal.
Skotárásin átti sér stað við Silfratjörn 2 í Úlfarsárdal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skot hafnaði í íbúð fólks

„Árásarmaðurinn fór af vettvangi og er hans leitað. Rannsóknin er á frumstigi og því er ekki með öllu ljóst hvað bjó að baki árásinni, en grunur er um að hún tengist útistöðum tveggja hópa,“ segir í tilkynningu lögreglu.

„Fyrir liggur að nokkrum skotum var hleypt af á vettvangi og hafnaði eitt þeirra í manninum eins og áður sagði. Annað skot hafnaði enn fremur í íbúð fólks, sem er með öllu ótengt málinu.“

Biðla til íbúa og fyrirtækja

„Vegna málsins biðlar lögregla til bæði íbúa og forráðamanna fyrirtækja í Úlfarsárdal og Grafarholti að athuga með myndefni í öryggis- og eftirlitsmyndavélum á svæðinu og koma því til lögreglu ef svo ber undir. Um er að ræða tímann frá miðnætti í gærkvöld og til klukkan sjö i morgun, en í þágu rannsóknarinnar er verið að leita upplýsinga um grunsamlegar mannaferðir.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkislögreglustjóra eru með mikinn viðbúnað vegna málsins og svo verður áfram, en ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert