Endurupptökudómur hefur hafnað beiðni Karls Emils Wernerssonar, um endurupptöku á máli sem dæmt var í Hæstarétti 17. maí 2018, að því er hann varðar. Dómurinn féll 25. október.
Dómstóllinn féllst ekki á að Karl hefði lagt fram ný gögn eða upplýsingar sem rynnu stoðum undir að sterkar líkur væru á því að málsatvik hefðu ekki verið leidd réttilega í ljóst við meðferð málsins, og að aðilanum yrði ekki um það kennt og að gögnin eða upplýsingarnar myndu verða til breyttrar niðurstörðu í mikilvægum atriðum.
Með dómi Hæstaréttar frá 2018 var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að þrotabúi Karls Emils og þrotabúi Steingríms Wernerssonar bæri að greiða þrotabúi Milestone ehf. óskipt ásamt þrotabúi Guðmundar Ólasonar 5.195.721.859 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Þá var þrotabúi endurupptökubeiðanda og þrotabúi Steingríms gert að greiða þrotabúi Milestone ehf. óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Málið má rekja til greiðslna Milestone ehf., samtals 5.195.721.859 krónur, til [A] á árunum 2006 og 2007 en í málinu krafði gagnaðili þremenningana, sem að framan greinir, um greiðslu á þeim fjármunum.
Karl Emil hélt því fram að sátt hans og íslenska ríkisins fyrir Mannréttindadómstól Evrópu 27. október 2020 og dómur Hæstaréttar í máli nr 8/2022 væru ný gögn í málinu. Með þeim væru leiddar sterkar líkur á því að málsatvik hefðu ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og Karli ekki um það kennt.
Fram kemur í dómi Endurupptökudóms, að engin ný gögn eða upplýsingar hefðu verið lögð fram sem vörpuðu nýju ljósi á þau málsatvik sem lágu dómi Hæstaréttar 2018 til grundvallar. Einu gögnin sem Karl hefði lagt fram í þessu skyni vörðuðu sáttir sem gerðar voru fyrir Mannréttindadómstól Evrópu vegna sakamálsins, endurupptöku á dómi Hæstaréttar nr. 74/2015 hvað varðaði þrjá af þeim sem þar voru sakfelldir og frávísun málsins að hluta til frá Hæstarétti í kjölfarið.
„Í þessum gögnum eða öðrum sem endurupptökubeiðandi hefur lagt fram hér fyrir dómi er hins vegar hvergi vikið efnislega að því hvort þau málsatvik sem voru lögð til grundvallar niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 325/2017 hafi verið efnislega röng en sem fyrr segir gafst endurupptökubeiðanda kostur á því við meðferð þess máls að leggja fram gögn eða upplýsingar um önnur málsatvik. Sú sönnun tókst hins vegar ekki svo sem fyrr greinir og hefur engin tilraun verið gerð af hálfu endurupptökubeiðanda til að færa slík gögn eða upplýsingar um málsatvik fram hér fyrir dómi til að renna stoðum undir að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 geti talist fullnægt,“ segir í dómnum.
„Verður samkvæmt öllu framangreindu ekki fallist á að endurupptökubeiðandi hafi lagt fram ný gögn eða upplýsingar sem renna stoðum undir að sterkar líkur séu á því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós við meðferð máls Hæstaréttar nr. 325/2017 og aðilanum verður ekki um það kennt og að gögnin eða upplýsingarnar muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. a-lið 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður af sömu ástæðu ekki fallist á að ný gögn og upplýsingar sem endurupptökubeiðandi hefur lagt fram og varða önnur atriði en málsatvik geti leitt til annarrar niðurstöðu, sbr. áskilnað b-liðar sömu málsgreinar. Er því ekki fallist á beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku dóms Hæstaréttar 17. maí 2018 í máli nr. 325/2017,“ segir í niðurstöðu Endurupptökudóms.