Fjórðungi synjað

mbl.is/​Hari

Af 2.460 umsækjendum sem sóttu um iðnnám í haust var 556 hafnað eða hartnær fjórðungi umsækjenda. Þetta kemur fram í greiningu Samtaka iðnaðarins, SI, sem kynnt verður á mannvirkjaþingi samtakanna í dag. Alls hefur um 2.400 verið synjað um slíkt nám frá árinu 2020.

SI segja að á síðustu fimm árum hafi brautskráðum úr iðnnámi fjölgað um 70%. Aukin vakning hafi átt sér stað um þá möguleika sem felist í iðnnámi sem hafi skilað sér í aukinni aðsókn í námið. Þessar tölur sýni þann mikla áhuga sem sé á iðnnámi. En samhliða aukinni aðsókn í iðnnám sé fjölmörgum umsóknum hafnað ár hvert og hafi hlutfall þeirra sem er hafnað aukist. Skortur sé á fjármagni til skólanna sem verði því að hafna áhugasömum nemendum.

Mun lægra hlutfall ungmenna hér á landi er í iðnnámi en almennt í ríkjum OECD að sögn SI eða 31% en er 44% að jafnaði í ríkjum OECD. Þá ljúka aðeins 40% af nemendum námi á tilsettum tíma en meðaltal OECD er 62%. SI segja að útgjöld til iðnnáms hér á landi séu hlutfallslega lægri en gengur og gerist á Norðurlöndunum og meðal ríkja OECD. Af útgjöldum til menntamála fara um 7% til iðn­náms samanborið við 10% að jafnaði á Norðurlöndunum og í ríkjum OECD.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert