Greiðsluþátttöku í megrunarlyfi hætt

Wegovy og Saxenda eru framleidd af danska lyfjarisanum Novo Nordisk …
Wegovy og Saxenda eru framleidd af danska lyfjarisanum Novo Nordisk sem einnig framleiðir Ozempic. AFP/Sergei Gapon

Einstaklingsbundinni greiðsluþátttöku við lyfið Saxenda verður hætt en veitt verður einstaklingsbundin greiðsluþátttaka fyrir lyfið Wegovy að uppfylltum ákveðnum skilyrðum fyrir fullorðna og unglinga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lyfjastofnun.

Bæði lyfin eru framleidd af danska lyfjarisanum Novo Nordisk. Um er að ræða lyf sem stuðla að þyngdartapi. 

Var greiðsluþátttakan endurskoðuð í ljósi nýrra upplýsinga frá Norðurlöndunum. 

„Þrátt fyrir að skilyrðum greiðsluþátttöku verði breytt hérlendis er ekki gengið jafn langt og gert er í skilyrðum hinna Norðurlandanna. Þannig er unnt að veita einstaklingum meiri möguleika á greiðsluþátttöku fyrir Wegovy hér á landi en í viðmiðunarlöndunum,“ segir í tilkynningunni.

Saxenda mun dýrara lyf

Sjúkratryggingar Íslands sendu beiðni til Lyfjastofnunar um endurskoðuð og óskaði SÍ sömuleiðis eftir því að greiðsluþátttaka í Saxenda yrði hætt. Var óskað eftir því í ljósi markaðssetningar á lyfinu Wegovy, en lyfin hafa sömu ábendingu, virka á sama efnaskiptakerfi líkamans. 

Þá er Saxenda töluvert dýrara en Wegovy.

Á hinum Norðurlöndunum er annað hvort engin greiðsluþátttaka á Saxenda og Wegovy, eða einstaklingsbundin greiðsluþátttaka að uppfyltum skilyrðum. 

Einstaklingsbundin greiðsluþátttaka Wegovy verður skilyrt við einstaklinga sem þjást af offitu eins og hún er skilgreind af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, eru með þyngdartengdan fylgisjúkdóm og lyfjameðferðin sé einn af fleiri liðum í meðferð við offitu.
Þá skal einstaklingsbundin greiðsluþátttaka einnig taka til unglinga sem þjást af offitu, eins og hún er skilgreind fyrir börn af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, og lyfjameðferðin sé einn af fleiri liðum í meðferð vegna offitu unglinga á aldrinum 12-18 ára.

Á vef Sjúkratrygginga Íslands er nánar fjallað um greiðsluþátttöku vegna lyfjanna Wegovy og Saxenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert