Sagan með augum Morgunblaðsins

Morgunblaðið hefur gengið með þjóðinni í heila öld og tíu árum betur. Af því tilefni er í dag hleypt af stokkunum umfjöllun, þar sem rifjuð verður upp saga lands og þjóðar í 110 ár gegnum fréttir blaðsins.

Um verður að ræða tvær greinar á viku í heilt ár, til 2. nóvember 2024, á fimmtudögum og laugardögum, og er sú fyrsta í dag – um morð sem framið var í Reykjavík rétt eftir að Morgunblaðið hóf göngu sína árið 1913.

Ætlunin er að rifja upp söguna og sýna hvaða tökum Morgunblaðið tók hana á hverjum tíma og eftir atvikum hvað þurfti til að umfjöllunin yrði að veruleika. Þannig að fléttað verður inn í frásögnina starfi blaðamanna, ljósmyndara og annarra starfsmanna Árvakurs eftir því sem við á.

Þegar tíðindi gerðust safnaðist fólk saman við Morgunblaðsgluggann í Austurstræti …
Þegar tíðindi gerðust safnaðist fólk saman við Morgunblaðsgluggann í Austurstræti þar sem blaðamenn settu upp fréttaskeyti um leið og þau bárust.

Aðallega verður horft til stórviðburða í bland við forvitnileg og eftirminnileg atvik úr lífi landsmanna, að ekki sé talað um mannlegu hliðina á sögunni. Svo verður þarna mögulega sitthvað sem fáir, jafnvel engir, muna eftir eða hafa heyrt um. Allt mun það ráðast meðan á vegferð þessari stendur. Markmiðið er umfram allt að hafa þessa umfjöllun fjölbreytta og skemmtilega eftir því sem efnið leyfir.

Árvakur býr ekki bara að miklu frétta- og greinasafni; myndasafnið er ekki síður digurt, þar sem margir af færustu fréttaljósmyndurum Íslandssögunnar hafa lagt gjörva hönd á plóginn, og að sjálfsögðu verður sótt í það safn enda segir ein mynd oftar en ekki meira en þúsund orð.

Ekki verður um línulega umfjöllun að ræða enda þótt við hefjum leik á fyrsta útgáfuári Morgunblaðsins, heldur mun okkur bera niður hér og þar á þessu árabili, allt eftir því hvernig vindar blása. Við erum að tala um 110 ár og 110 birtingar, þannig að mögulega munu öll árin koma við sögu. Það mun þó ráðast betur enda ekki útilokað að sum ár kalli á fleiri greinar en eina sem aftur komi þá til með að ýta öðrum árum út af borðinu.

Gert er ráð fyrir að flestir, jafnvel allir, blaðamenn Morgunblaðsins leggi sitt af mörkum til verkefnisins, fólk af hinum ýmsu deildum blaðsins með ólíka þekkingu og ólík áhugasvið. Ekkert er Morgunblaðinu nefnilega óviðkomandi nú – frekar en það var 1913.

Afmælisferð um landið

Sitthvað fleira verður gert á afmælisárinu. Þannig hefst síðar í þessum mánuði 110 ára afmælisferð Árvakurs, þar sem blaðamennirnir Stefán Einar Stefánsson, Marta María Winkel Jónasdóttir, Andrés Magnússon, Sonja Sif Þórólfsdóttir, Gísli Freyr Valdórsson og Hólmfríður María Ragnhildardóttir munu á næstu 12 mánuðum taka hús á fólki vítt og breitt um landið og vinna hljóðþætti fyrir mbl.is, auk þess sem myndefni mun fylgja og efni úr þáttunum birtast í Morgunblaðinu Fyrirhugað er að heimsækja hátt í 50 staði og ræða við 110 ólíka Íslendinga um líf þeirra og störf í á sjötta tug þátta. Horft verður um öxl en ekki síður til framtíðar.

Að sögn Stefáns Einars er lagt upp með ákveðna dagskrá en reynslan af ferðum sem þessum sé hins vegar sú að oftar en ekki reki ýmislegt ófyrirséð á fjörur manna. Umfjöllunin geti því hæglega tekið breytingum eftir því sem fram vindur. Sum sé lifandi efni fyrir lifandi miðla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka