Edda Björk Arnardóttir, móðir þriggja drengja, hefur kvartað til umboðsmanns Alþingis undan aðgerðum sýslumanns þegar færa átti drengina úr umsjá hennar til föður síns með innsetningargerð.
Kvörtunin á rætur sínar að rekja til aðgerðar þar sem sýslumaður fór að heimili Eddu í Grafarvogi í því skyni að færa synina til föður þeirra sem búsettur er í Noregi. Norskur dómstóll hafði komist að þeirri niðurstöðu að faðirinn hefði fulla forsjá yfir börnunum. Tveir drengjanna eru 12 ára og einn 10 ára. Þeir eiga tvær alsystur 15 og 16 ára sem eru í forsjá Eddu.
Kæran er í fjórum liðum. Í fyrsta lagi byggir hún á því að verklag og aðgerðin brjóti í bága við 43. gr. barnalaga um rétt barna til að tjá sig við allar ákvarðanir er þau varða og fara skuli eftir slíkum ákvörðunum ef barn hefur aldur og þroska til.
Með því að virða það ekki telur Edda ennfremur að brotið sé gegn samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns sem getur myndað sér skoðanir um tjá sig frjálslega í öllum málum sem það varðar. Þá er vísað til 9. gr 19/2013 sem segir til um að tryggja beri að barn sé ekki skilið frá foreldrum gegn vilja þeirra.
Í öðru lagi að starfsmenn barnaverndar hafi brugðist lögbundinni skyldu sinni við að gæta hagsmuna barnsins. „Heldur þvert á móti veittu sýslumanni liðstyrk í því að gerðin næði fram að ganga,“ segir í kvörtuninni.
Þá hafi sýslumaður gerst brotlegur við lög þar sem lögmanni Eddu var meinað að vera viðstaddur aðfarargerðina.
Eins að „lögregla/ríkissaksóknari og sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi haft með sér samráð og misbeitt þannig með alvarlegum hætti opinberu valdi,“ segir í kvörtuninni.