Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið sex manns í tengslum við skotárásina sem átti sér stað við Silfratjörn 2 í Úlfarsárdal í nótt.
Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Að sögn Gríms hyggst lögregla ekki tjá sig nánar um hvort tekist hafi að henda reiðum á þann sem ábyrgur er fyrir árásinni að svo stöddu.
Þá útilokar Grímur jafnframt ekki að lögreglan komi til með að handtaka fleiri í tengslum við árásina eftir því sem rannsókninni vindur áfram.