Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur gert breytingar á reglugerð um útrýmingu á riðuveiki í sauðfé. Felur breytingin í sér að yfirdýralæknir geti framvegis lagt til við ráðherra niðurskurð á hluta þar sem riða greinist, í stað þess að skera þurfi niður alla hjörðina, líkt og reglugerðin hefur kveðið á um fram til þessa. Frá þessu er greint í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Reglugerðin hefur þegar tekið gildi.
Í tilkynningunni segir að með þessu verði mögulega hægt að forða frá niðurskurði þeim hluta hjarðar sem beri verndandi arfgerð gegn riðu.
Breytingunni er ætlað að minnka þann skaða sem sauðfjárbændur og þeirra nærsamfélag verða fyrir þegar riða greinist og flýta jafnframt fyrir ræktun á fjárstofni sem ber verndandi arfgerð gegn riðu.
Nýlega kom upp riðutilfelli á bænum Stórhóli í Húnaþingi vestra, en á svæðinu hafa verið þrálát riðusmit á undanförnum árum. Á jörðinni eru 600 fjár og hafa verið bundnar vonir við að ekki sé nauðsynlegt að fella alla hjörðina. Hins vegar heimilaði reglugerð ekki slíka tilhögun.
Bæði Matvælastofnun og yfirdýralæknir höfðu lagt til þessa breytingu sem ráðherra hefur nú samþykkt.