Íbúðafundur Grindavíkur fer nú fram í íþróttamiðstöð bæjarins. Hófst hann klukkan 17 en tilefni hans eru jarðhræringar norðvestan við fjallið Þorbjörn.
mbl.is náði tali af nokkrum íbúum Grindavíkur fyrir fundinn og voru þeir flestir sammála um að þeir vildu fá nánari og betri svör, meðal annars um rýmingaráætlanir.
„Ég er hingað komin til að fá upplýsingar og nákvæmari svör, það er titringur í fólki og ég finn það bæði hjá okkur og börnunum,“ segir Íris Kristinsdóttir íbúi í Grindavík.
Segir hún ástandið núna minna á stöðuna fyrir fyrsta gos þegar landris var nálægt Þorbirni.
„Þá gaus sem betur fer annars staðar og auðvitað vonum við að það gerist líka núna.“
Spurð að því hvort íbúar Grindavíkur séu með rýmingaráætlanir á hreinu ef ske kynni að gjósa myndi nærri byggð segir hún svo ekki vera.
„Það vantar mikið upp á upplýsingagjöfina til íbúanna hérna, við vitum ekkert og það er einhvern veginn hver að hugsa í sínu horni,“ segir hún og bætir við að hún hafi verulegar áhyggjur af stöðunni.
Undir þetta tekur Guðrún Kristín Jónsdóttir, íbúi í Grindavík, sem segir að til sé rýmingaráætlun en hún sé það flókin að fólk skilji hana ekki.
„Hún er bara allt of flókin. En hingað er ég komin af sömu ástæðu og Íris, til að róa taugarnar.“
Segir hún mikið vanta upp á upplýsingaflæðið til bæjarbúa en það sé mjög ruglingslegt.
„Það væri gott ef Grindavíkurbær myndi nota Grindavíkursíðuna til að koma upplýsingum áleiðis til okkar,“ segir hún og Íris tekur undir. Segja þær báðar að lokum að einnig séu margir bæjarbúar uggandi yfir því að vinna annars staðar og skilja börnin sín eftir í bænum yfir daginn á meðan á þessu óvissustigi stendur.