Voða-atburður hefur orðið í bænum

Eftir útgáfu í um hálfan mánuð birtist stórfrétt um morð …
Eftir útgáfu í um hálfan mánuð birtist stórfrétt um morð sem var framið í Reykjavík. Ýtarlega var fjallað um málið í Morgunblaðinu fyrir 110 árum.

Morgunblaðið hafði aðeins komið út í hálfan mánuð þegar heldur betur dró til tíðinda. Á forsíðu blaðsins 17. nóvember 1913 var fyrirsögnin:

„Bróðurmorð í Reykjavík.

Júlíana Jónsdóttir byrlar bróður sínum, Eyjólfi Jónssyni, eitur, sem verður honum að bana.“

Upphaf fréttarinnar er óneitanlega dramatískt:

„Sá voða-atburður hefir orðið hér í bænum, sem eigi á sinn líka í annálum Reykjavíkur eða landsins, og þó víðar sé leitað.

Morð framið af ásettu ráði hefur eigi heyrzt um getið hér í bæ í manna minnum.

En hitt, að systir drepi bróður sinn, til þess að næla sér í nokkur hundruð krónur, það er svo einstætt, svo ferlegt, svo hörmulega hryllilegt, að maður fær naumast skilið, að satt sé.

Og þó er það satt.“

Myndir Morgunblaðsins af Júlíönu og Eyjólfi Jónsbörnum.
Myndir Morgunblaðsins af Júlíönu og Eyjólfi Jónsbörnum.

Á forsíðunni og inni í blaðinu, sem var fjórar síður að stærð, er fjallað ýtarlega um málið. Meðal annars segir svo um Eyjólf, sem bjó í Dúkskoti, Vesturgötu 13, í Reykjavík:

„Eyjólfur Jónsson, sá sem ráðinn hefur verið af dögum, var 48 ára gamall, ættaður frá Arnórsstöðum á Barðaströnd. Var nokkuð lengi á Bíldudal við vinni hjá Pétri Thorsteinsson og kallaður Eyjólfur sterki. Eyjólfur var talinn dugnaðarmaður, en maurapúki mikill, maður sem alt lagði á sig fyrir peninga.“ Honum er einnig lýst þannig að hann hafi verið fyndinn og með afbrigðum skemmtilegur, kvæðamaður mikill og kunnað margar rímur.

Júlíana, sem bjó með Jóni Jónssyni og sjö ára gamalli dóttur sinni að Brekkustíg 14, játaði að hafa myrt bróður sinn með rottueitri. Um Júlíönu var m.a. sagt í dómi Landsyfirréttar: „Júlíana Silfa Jónsdóttir er fædd 1. ágúst 1865 á Eyrarnesi í Snæfellsnessýslu og ólst þar upp til fermingaraldurs; var uppeldi hennar eins og þá gerðist venjulega í sveitum hjá alþýðu manna; hún var fermd 1880 með vitnisburði vel fyrir bóklestur, kunnáttu og hegðun; aðra fræðslu fékk hún ekki, en á tvítugsaldri lærði hún að skrifa.“ Síðar í dómnum segir: „Þeir sem þekkja ákærðu bera henni þann vitnisburð, að hún sé greiðvikin, brjóstgóð og tilfinninganæm fyrir bágindum annara, en ástríðukona og nokkuð skapstór, frekorða stundum, en hreinskilin.“

Láttu matinn í þig

Svona sagði Morgunblaðið frá morðinu:

„Eyjólfur heimsótti systur sína laugardag 1. nóv. milli kl. 5 og 6 síðd. Bauð hún honum þá að borða og þá hann það. Skyr var fram reitt. Júlíana blandaði skyrið hvítu dufti, tvisvar úr skeið, að því er Eyjólfur hermdi síðar. Fanst Eyjólfi óbragð að skyrinu. „Hvaða vitleysa“ svaraði Júlíana „eg setti dálítið brennivín saman við það. Láttu matinn í þig. Þú hefur gott af brennivínstárinu. Eyjólfur hvolfdi í sig skyrinu og fór síðan niður í Iðnó, fékk þar kvöldmat og fór svo heim.

En þá fór eitrið að virka. Hann fékk uppsölur miklar, er héldust fram undir morgun. En sunnudag 2. nóv. var hann þó það hress, að hann komst til systur sinnar og heimtaði þá kistu, sem hún geymdi fyrir hann og í voru sparisjóðsbók með 705 kr. í og peningar nokkrir og bendir sú heimsókn til, að eitthvað hafi Eyjólfur verið farinn að gruna systur sína um græsku. Enda reyndist svo, að er hann skoðaði í kistuna, vantaði sparisjóðsbókina og peninga (2 kr.) – krafði hann þá Júlíönu bókarinnar með vottum og þorði hún þá eigi annað en láta hana af hendi. Hafði hún þá geymt hana niðri í kommóðuskúffu.“

Teiknuð mynd af Dúkskoti, Vesturgötu 13, þar sem Eyjólfur bjó.
Teiknuð mynd af Dúkskoti, Vesturgötu 13, þar sem Eyjólfur bjó.

Morgunblaðið sagði síðar að kvöldið sem Eyjólfur hafði verið hjá systur sinni hefði hann háttað kl. 9. „Lá hann í flatsæng undir glugganum, en í rúminu þau Magnús og Ingunn í Dúkskoti. Kvað þá Eyjólfur rímur margar, áður en uppköstin byrjuðu, m.a. mikið úr Þórðarrímum. Voru það seinustu rímurnar, sem hann kvað um æfina.“

Eyjólfur var fluttur á sjúkrahús 11. nóvember og dó þar 13. nóvember. Lík hans var krufið og hefur Morgunblaðið eftir héraðslækninum að í ljós hafi komið greinileg eitrun í öllum líkamanum og benti allt til þess að eitrunin hefði stafað af fosfór sem verkar seint. Sjónarvottar sögðu að þegar Eyjólfur kastaði upp hefði lýst af spýjunni eins og maurildi væri.

Nú þóttu böndin berast að systur Eyjólfs, Júlíönu, og var hún handtekin nokkrum dögum síðar og flutt í varðhald í Hegningarhúsinu. Síðan segir Morgunblaðið: „Frestaðist réttarhaldið nokkuð með því að Júlíana kvartaði yfir lasleika svo að sækja varð héraðslækninn. Bar hún sig þá aumlega. Í réttarhaldinu játaði Júlíana svo, að hún hefði byrlað bróður sínum eitur í skyrið – af ásettu ráði – til að stytta honum aldur og komast yfir fjármuni hans. En kvaðst hún hafa gert þetta fyrir sífellda áeggjan Jóns Jónssonar, sem hún býr með.

Þessar upplýsingar hefur Morgunblaðið fengið frá mjög góðum heimildum, þótt ekki sé það frá lögreglustjóra sjálfum.“

Hló að misgripum þeim

Jón Jónsson var handtekinn í kjölfarið. „Hann lét sem eigi vissi hann neitt hvaðan á sig stæði veðrið, hvers vegna væri verið að taka hann fastan og hló að misgripum þeim.

Í fyrri nótt var Júlíana svo hávaðasöm, grét og stundi svo, að fangarnir í hinum klefunum fengu eigi hálfan svefn. En Jón heldur sínum sönsum alveg.

Matarlyst hafði þó Júlíana haft í gær og meira að segja mælst til að fá kaffidreitil,“ segir blaðið.

Dúkrista Danans Bangs sýnir húsakynni í Dúkskoti.
Dúkrista Danans Bangs sýnir húsakynni í Dúkskoti.

Morgunblaðið ræðir þennan dag m.a. við kunningjafólk Eyjólfs og lýsir húsakynnum hans nákvæmlega. „Það er lágt undir loftið og raki var mikill á veggjum. Í öðru horninu var lítill drengur og lék sér hljótt, og við borðið hjá glugganum sat gömul kona við saumavél; sat hún á gulmálaðri kistu - líkust sjómannskistu - og var hún eign Eyjólfs. Var það sú kista sem peningarnir og bókin voru í og Júlíana geymdi í sumar fyrir bróður sinn. Eitt rúm var í herberginu og yfir því hékk gömul helgimynd á gljápappír, half eyðilögð af raka. En gömul klukka tifaði tilbreytingarlaust í stofunni, þar sem fólkið sat hljótt og lostið af þessum voða-atburði. Hún er það eina, sem þögnina rýfur í Dúkskoti þessa dagana. Það er svo hljótt að manni stóð næstum stuggur af.“

Undir frásögnina ritar Vagabundus, líklega Árni Óla sem var fyrsti og þá eini blaðamaður Morgunblaðsins, og raunar voru aðrar greinar um málið skrifaðar undir ýmsum dulnefnum, svo sem Hyltingur, Comes og Flugmaður.

Nýr tónn sleginn í fréttaflutningi

Fréttir Morgunblaðsins af þessu máli vöktu mikla athygli enda kvað við nýjan tón í íslenskum fréttaflutningi, nákvæmar lýsingar og allir voru nafngreindir. Vilhjálmur Finsen ritstjóri Morgunblaðsins segir frá viðbrögðum bæjarbúa í ævisögu sinni Alltaf á leið heim, sem kom út 1956: „Frásögnin um morðið, sem var mjög ýtarleg, vakti óskaplega gremju í Reykjavík. Fólkinu þótti það syndsamlegt að segja svo opinskátt frá öllum einstökum atburðum þessa sorglega viðburðar. Síminn þagði ekki allan þenna dag, ég var skammaður eins og hundur, og það var sagt að Morgunblaðið væri ekki lesandi o.s.frv. Það var jafnvel hringt til konu minnar og hún beðin að hafa áhrif á mig til batnaðar!“ En hann bætir við: „Enginn sagði blaðinu upp, en aftur á móti bættust við margir nýir áskrifendur.“

Ekki síðri athygli vöktu teikningar sem blaðið birti af Dúkskoti og þeim Júlíönu og Eyjólfi og voru fyrstu íslensku fréttamyndirnar. Árni Óla segir frá því í bók sinni Erill og ferill blaðamanns, sem kom út árið 1963, að Morgunblaðið hafi fengið danskan mann til að teikna og skera í linoleum myndir af Dúkskoti, bæði utan og innan. „Þessi maður hét Bang og var forstjóri í Nýja Bíó. Hann treysti sér líka til að gera myndir af þeim systkinum. Var nú fengin ljósmynd af Júlíönu en engin mynd var til af Eyjólfi. Ég þóttist muna eftir karlinum og teiknaði mynd af honum eftir minni. Ekki var sú mynd fögur álitum en versnaði stórum er hún hafði verið skorin í linoleum. Svo komu myndirnar í blaðinu, en sama daginn var ég á gangi í Aðalstræti og mæti þar karlinum, sem ég hélt að væri Eyjólfur. Ég hafði farið mannavillt, hann var ljóslifandi þessi.

Myndin af Eyjólfi í blaðinu þótti svo afskræmileg, að það var lengi á eftir, er strákar vildu hafa í sem stærstum hótunum hver við annan, þá sögðu þeir: „Ég skal setja mynd af þér í Morgunblaðið, h……. þitt!“ skrifar Árni.

Síðasti líflátsdómurinn

Morgunblaðið segir fréttir af morðmálinu næstu daga, fjallar um réttarhaldið yfir Júlíönu og Jóni, rekur vitnisburð fólks og segir frá útför Eyjólfs og birtir teikningu af kistu hans. Þann 26. apríl árið eftir birtist svo örstutt frétt í blaðinu um að dómar hafi verið kveðnir upp í bróðurmorðsmálinu. Jón Jónsson var dæmdur sýkn vegna þess að sannanir vantaði yfir honum en Júlíana var dæmd til lífláts og var þetta síðasti líflátsdómurinn sem kveðinn var upp á Íslandi. „Þeim dómi verður breytt í æfilangt fangelsi,“ segir Morgunblaðið og það reyndist rétt. Landsyfirréttur staðfesti dómana árið eftir og hæstiréttur í Kaupmannahöfn staðfesti dóminn endanlega ári síðar en konungur mildaði dóminn úr lífláti í ævilanga fangelsisvist. Júlíana var síðan náðuð af konungi árið 1919. Þau Jón létust bæði árið 1931.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka