Vonar að almannavarnir fari að „taka þessu alvarlega“

Í kvöld fór fram upplýsingafundur fyrir íbúa Grindavíkur vegna jarðhræringanna …
Í kvöld fór fram upplýsingafundur fyrir íbúa Grindavíkur vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Egill Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs hjá HS Veitum, hvetur almannavarnir til að grípa til frekari aðgerða til þess að fyrirbyggja þá hættu sem gæti skapast íbúum Grindavíkur og nágrennis ef til eldgoss kæmi og virkjunin Svartsengi færi undir.

Þetta kom fram á upplýsingafundi fyrir íbúa Grindavíkur sem fram fór í íþróttamiðstöð bæjarins í kvöld. 

Mátu raforkuþörfina á svæðinu

Egill hóf ávarp sitt á fundinum með því að segja að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem HS Veitur þurfa að fást við aðstæður af þessu tagi. 

„Við lentum í svona stórum truflunum í Vestmannaeyjum þar sem að strengurinn til Eyja bilaði,“ sagði Egill og bætti við að forsvarsmenn HS Veitna telji að ef Svartsengi færi undir biði rafmagnsveitunni umtalsvert stærra verkefni. 

Þá sé búið að meta raforkuþörfina á svæðinu og leggja niður drög að mögulegum leiðum til þess að minnka mögulegan skaða. 

„Til að taka á þessu erum við búin að vera í sambandi við Landsnet varðandi díselvélar. Sem betur fer keyptu þeir tíu 1,2 megavatta vélar fyrir tveimur árum síðan. Við erum búnir að ræða við þá og þeir eru tilbúnir að koma með sex til sjö vélar á svæðið,“ sagði Egill. 

„Við erum byrjaðir að undirbúa þetta eins og menn kannski hafa séð hérna í bænum. Við erum farnir að undirbúa undirstöður undir þessar vélar við nokkrar dreifistöðvar og þetta er eitthvað sem við klárum núna bara í þessari viku. En þetta þýðir ekki að það verði allt í góðu lagi,“ bætti Egill við.

„Þetta eru kannski tveir hitablásarar“

Því næst útskýrði Egill að ef heita vatnið færi myndi það leiða til aukinnar rafmagnsnotkunar á heimilum, því þá þyrfti að notast við raforku til þess að hita þau. 

Við höfum verið að reikna þetta í kerfinu, þannig að eiginlega allt umfram fimm kílóvött verður of mikið. Þrjú kílóvött eru ekki mikið, þetta eru kannski tveir hitablásarar,“ sagði Egill og bætti við að ekki væri hægt að halda hita í heilu húsi með einungis þremur kílóvöttum, heldur mögulega einungis því sem næmi einu herbergi.  

„Svona er ástandið,“ sagði Egill eftir að hafa útskýrt þá miklu skerðingu sem kæmi til með að eiga sér stað ef Svartsengi lægi niðri. 

Vill ekki mála skrattann á vegginn strax

„Ég ætla ekki að mála skrattann á vegginn alveg strax, en þetta er allavega þessi sviðsmynd sem við erum að vinna eftir. Ástæðan fyrir því að ég nefni þessi þrjú kílóvött er sú að dreifikerfið okkar er ekki byggt upp fyrir rafkyndingu. Það er hitaveita á svæðinu og þess vegna teljum við sem sagt að þrjú kílóvött séu algjört hámark.

Ef við förum eitthvað hærra þarf að fara í einhverjar skammtanir og út í kerfunum sem er bæði tímafrekt og erfitt, en þetta er eingöngu til þess að fá smá hita í eitt herbergi og vera með ljós. Þetta er algjör neyðarlausn sem við erum að fara í,“ sagði Egill.  

Almannavarnir þurfi að taka þessu alvarlega

Loks tók Egill fram að ofangreindar lausnir væru allar hugsaðar til skamms tíma. Sem betur fer væri hægt að grípa til aðgerða til lengri tíma, en það væri ekki eitthvað sem hægt væri að framkvæma á einni nóttu. 

„Ég vona núna að þetta ástand sem kom upp í síðustu viku tryggi aðgerðir og að það verði eitthvað gert á svæðinu. Og að almannavarnir og aðrir sem stjórni þessu fari að taka þessu alvarlega. Það þarf að fara í allskyns aðgerðir og þetta væri eitthvað sem almannavarnir gætu skaffað,“ sagði Egill. 

„Ég vona að ég hafi ekki verið of svartsýnn, en þetta er bara það sem við sjáum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert