Yfir 40% vilja flytja í burtu fyrir fullt og allt

Innflytjendur leita í kyrrð og ró úti á landsbyggðinni.
Innflytjendur leita í kyrrð og ró úti á landsbyggðinni. mbl.is/Arnþór

Yfir 40% innflytjenda sem búa í smærri byggðarlögum hér á landi telja frekar eða mjög líklegt að þeir flytji þaðan fyrir fullt og allt. 24% þeirra sem eru af íslenskum uppruna eru á sömu skoðun. 

Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, greindi frá þessu á Byggðaráðstefnu 2023 sem fer fram í Reykjanesbæ í dag. Þar vísaði hún í niðurstöður eigindlegrar rannsóknar í minni byggðarlögum fyrir utan stór-höfuðborgarsvæðið frá árinu 2019 þar sem hún beindi sjónum sínum að svörum innflytjenda sem eiga báða foreldra af erlendum uppruna.

Aðeins 5% svarenda féllu undir þennan hóp, þar af voru konur 74% þeirra svarenda. Alls voru tekin 330 viðtöl við fólk í 56 byggðakjörnum með færri en 2.000 íbúa.

mbl.is/Arnþór Birkisson

Aðgengi að menningu og afþreyingu mikilvægt

Þegar fólkið var spurt hvað skipti helst máli varðandi áætlanir um að flytjast í burtu nefndi það helst aðgengi að menningu og afþreyingu annars vegar og aðgengi að verslun og þjónustu hins vegar. Næst á eftir komu atvinnutækifæri og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þegar svör þeirra sem hafa íslenskan uppruna, þ.e. með báða foreldra íslenska eða annað foreldrið, voru skoðuð kom í ljós að atvinnutækifærin skiptu mestu máli varðandi flutninga.

Náttúran og umhverfið voru mikilvægur þáttur í ákvörðun innflytjenda um að vilja búa á minni stöðum utan höfuðborgarsvæðisins. Skýrt kom fram í svörunum hversu erfitt var fyrir þá að vera þátttakendur í samfélaginu og bæjarlífinu. Oft bjuggu þeir yfir lítilli þekkingu á staðháttum og sögu.

Unnur Dís á ráðstefnunni í morgun.
Unnur Dís á ráðstefnunni í morgun. Mynd/Skjáskot

Áhugi á hefðbundnum íslenskum málefnum

Unnur Dís sagði það ljóst eftir samtölin við innflytjendurna að þeir hefðu almennt áhuga á fleiri málum en þeim sem eingöngu sneru að innflytjendamálum. Þeir hefðu líka áhuga á hefðbundnum málefnum, svo sem samgöngu- og stjórnmálum, líkt og fólk af íslenskum uppruna. Gott væri fyrir Íslendinga að hafa þetta í huga. 

Hún sagði yfir 80% þeirra sem fluttu til Íslands hafa komið frá evrópska efnahagssvæðinu. Margir hefðu verið búnir að mennta sig, höfðu jafnvel gefist upp á borgarlífinu í heimalandi sínu og vildu komast í frið og ró. Fólkið hefði flest verið með atvinnu í heimalandinu en vildi komast í einfaldara líf. Einnig höfðu margir svarendur einlægan áhuga á Íslandi og íslenskri náttúru.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert