Tíu jarðskjálftar sem mældust yfir 3 að stærð riðu yfir á svæðinu nálægt Grindavík frá miðnætti þar til snemma í morgun. Þrír stærstu skjálftarnir mældust rúmlega 4 að stærð og riðu yfir með um hálftíma millibili frá klukkan rétt fyrir fjögur í nótt.
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, segist í samtali við mbl.is hafa fundið fyrir þeim öllum.
Hann segist ekki finna mikinn mun á skjálftum sem mælast um 3 að stærð og skjálftum sem mælast um 4.
„Þetta er náttúrulega bara svo nálægt að það víbrar allt.“
Bogi segir að stærri skjálftarnir séu aðallega lengri. Það sé mesti munurinn. Hann segir flesta í bænum taka skjálftunum með jafnaðargeði og það sé í raun það eina sem hægt er að gera.
„Það er svona pínu ólga í bænum en annars held ég að almennt séð séu menn bara slakir. Ég held að 90% af bænum sé farinn að líta á þetta sem frítt nudd í rúminu. Það var einn sem sagðist ætla að skila sínu því það væri ekki hægt að slökkva á nuddinu í því.“
Formaðurinn segir að sem betur fer hafi fasteignir og húsmunir ekki orðið fyrir miklu hnjaski og að flestir séu búnir að nota tækifærið og skipta fína puntinu sínu úr hillum og skápum fyrir það skraut sem það fílar síður og þykir minna vænt um – jólagjafir sem fólk hefur ekki viljað.
Segir hann að björgunarsveitin sé farin að undirbúa sig í rólegheitunum. Raða í kringum sig búnaði sem líklegra er að þurfi að grípa til.
„Bátarnir fara í annað hús og ljósavélarnar koma inn. Við yfirförum grímur og erum komnir í þennan gír og ætlum okkur að vera tilbúnir ef eitthvað gerist. Við erum svo sem búnir að æfa þetta í þrjú ár. Það er bara óvissa í þessu en við tæklum það sem kemur þegar það kemur eða þetta hættir.“