Dæmi um aukaatriði sem verður aðalatriði

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir umfjöllunina um orðaskipti sín við blaðamann norska ríkisútvarpsins, NRK, á blaðamannafundi fyrr í vikunni vera dæmi um að aukaatriði verði að aðalatriðum.

Á blaðamannafundinum var Bjarni spurður út í mannskæða loftárás Ísraelshers á flóttamannabúðir í Jabaliya á Gasasvæðið. Bjarni virtist ekki tilbúinn til að samþykkja fullyrðingu blaðamannsins um að árás hefði verið gerð.

Hafa rétt til að verja sig en líka ríkar skyldur

„Ég átti þarna í orðaskiptum við blaðamann og hann síðan greip fram í og umorðaði spurningu sína. Mér finnst þetta kannski dæmi um það þegar aukaatriðin verða skyndilega að aðalatriðum,” segir Bjarni, spurður hvort umfjöllunin hefði komið sér á óvart, að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Aðalatriði málsins er að það sem gerðist í flóttamannabúðunum eru hreinar hörmungar. Eins og ég tók fram í þessu viðtali eru vísbendingar um að þetta sé brot á alþjóðalögum vegna þess að það sé ekkert meðalhóf í aðgerðum Ísraela við að hafa uppi á hryðjuverkamönnum. Þeir hafa rétt til að verja sig en þeir hafa líka ríkar skyldur til að ganga ekki lengra en tilefnið getur réttlætt. Þarna eru augljóslega uppi vísbendingar um að það hafi verið gengið of langt og það ætti að rannsaka,” bætir hann við.

Reykur stígur upp í loftið eftir loftárás Ísraela á Gasasvæðið …
Reykur stígur upp í loftið eftir loftárás Ísraela á Gasasvæðið í dag. AFP/Fadel Senna

„Blaðamaðurinn orðaði spurninguna þannig að það mátti skilja að það hafi verið ásetningur og sjálfstæður tilgangur að útrýma flóttamönnum. Ég vildi vekja athygli á því, eins og Ísraelsher hefur bent á, að í þessari aðgerð var skotmarkið hryðjuverkamenn.”

Stendur algjörlega með sinni ákvörðun

Spurður hvort gagnrýni í hans garð hér heima, fyrst vegna þess að Ísland sat hjá í atkvæðagreiðslu um vopnahlé á Gasasvæðinu og síðan vegna samskiptanna við norska blaðamanninn, eigi rétt á sér kveðst hann standa algjörlega með ákvörðuninni sem var tekin í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hvetur hann fólk til að kynna sér málflutning íslenskra stjórnvalda á þinginu.

Leitað í rústum byggingar sem var eyðilögð í loftárás Ísraela …
Leitað í rústum byggingar sem var eyðilögð í loftárás Ísraela á Bureij-flóttamannabúðirnar í gær. AFP/Mahmud Hams

„Sá málflutningur gekk út á að það þyrfti að vinna í átt að friði og það þyrfti að gæta að mannúðarsjónarmiðum. Við gerðum skýlausa kröfu um að alþjóðalög væru virt, gáfum hvergi afslátt af því. Svo mætti hafa það í huga að þessi ályktun [um vopnahléið], þó að hún hafi verið samþykkt með 120 atkvæðum, þá hefur hún mjög litlu breytt varðandi það sem hefur verið gert í millitíðinni,” svarar ráðherrann.

Blóðbaðið heldur áfram

Á ríkisstjórnarfundinum lagði Bjarni fram minnisblað, það fyrsta að lokinni atkvæðagreiðslunni á allsherjarþinginu. Spurður nánar út í minnisblaðið segir hann það hafa snúist um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og áherslur íslenskra stjórnvalda um að gert verði mannúðarhlé á átökunum til að hægt sé að koma birgðum inn á svæðið og að halda þurfi áfram að koma fólki í burtu þaðan. Einnig hafi íslensk stjórnvöld lagt áherslu á að allar ásakanir um stríðsglæpi og brot á alþjóðalögum verði rannsakaðar og þeim fylgt eftir.

Bjarni bendir sömuleiðis á að á allsherjarþinginu í gær hafi verið kynnt að Ísland ætlaði að tvöfalda framlag sitt til mannúðaraðstoðar á svæðinu, úr 70 milljónum í 140.

Ísraelsir hermenn á ferðinni skammt frá Gasasvæðinu í dag.
Ísraelsir hermenn á ferðinni skammt frá Gasasvæðinu í dag. AFP/Jack Guez

„Að öðru leyti ræddum við um það hryllilega ástand sem þarna hefur skapast. Eins og allir hafa séð heldur blóðbaðið áfram jafnvel eftir allan þann þrýsting sem hefur myndast á undanförnum dögum og vikum, sem er skelfilegt,” bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert