Ekki rétt að staðan sé ekki tekin alvarlega

Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, ræddi við mbl.is um …
Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, ræddi við mbl.is um viðbúnað almannavarna. Samsett mynd

„Þetta er ekki rétt. Í stuttu máli hefur almannavarnakerfið, sem er samsett úr fjölmörgum einingum, allt brugðist við frá því að óvissustigi var lýst yfir vegna jarðhræringa og þegar sú sviðsmynd fer að skýrast að það sé kvikusöfnun norðvestan af Þorbirni þá er sú sviðsmynd lögð á borðið og almannavarnakerfið býr sig undir þá sviðsmynd sérstaklega.“

Þetta segir Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, spurður út í orð Egils Sigmundssonar, sviðsstjóra rafmagnssviðs hjá HS Veitum, á íbúafundinum í Grindavík í gær. 

Sagðist Egill vona að al­manna­varn­ir færu að taka ástandið á Reykjanesskaga alvarlega til þess að fyr­ir­byggja þá hættu sem gæti skap­ast íbú­um Grinda­vík­ur og ná­grenn­is ef til eld­goss kæmi og virkj­un­in í Svartsengi færi und­ir.

Með góða stjórn á stöðunni

Segir Sólberg að í fyrrnefndum undirbúningi felist að skoða hverju sinni hvaða áhætta sé til staðar. 

„Við skoðum hvort og hvaða fyrirbyggjandi aðgerða er mögulegt að grípa til og vert og rétt að grípa til á þessu stigi, síðan er farið yfir fyrirliggjandi viðbragðsáætlanir um hvernig eigi að bregðast við ef fyrirséð eða ófyrirséð hætta raungerist.“

Telur hann almannavarnakerfið vera með góða stjórn á stöðunni, meðal annars ef kemur til þess að svæðið verið rafmagns- og vatnslaust. 

„Við teljum allt almannavarnakerfið vel upplýst um stöðu mála, það sé í góðum tengslum og samskiptum og upplýsingaskiptum við hvert annað og hugi vel að þeim undirbúningi sem að hverjum og einum snýr og þá hvort og hvernig þessar einingar geti stutt hver við aðra ef upp kemur að til þarf.“

Engar skýrar vísbendingar um að kvikan sé að leita upp

En skyldi þá vera tímabært núna að loka Bláa lóninu, einum fjölsóttasta ferðamannastað landsins?

„Frá upphafi þessara jarðhræringa hefur Veðurstofan fylgst vel með stöðu mála og verið í góðu samstarfi við okkur og eftir atvikum aðra viðbragðsaðila og mikilvæga innviði og þá sem þurfa á upplýsingagjöf að halda. 

Ríkislögreglustjóri, í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurnesjum, hefur lýst yfir óvissustigi og óvissustigi er lýst yfir þegar vísbendingar gefa til kynna að það kunni að þurfa að grípa til aðgerða en það er ekki tilgreindur tímarammi sem það er undir,“ segir Sólberg.

Tekur hann fram að það sé gert til að virkja kerfið og alla aðila til að huga vel að sér og sínu og auka upplýsingaskipti og samtal á milli starfseininga.

„Sú staða er enn þá og þetta hófst með jarðskjálftavirkni sem leiddi til þess að það er ljóst að það er kvikusöfnun þarna norðvestan og undir Þorbirni. Staðan núna er með þeim hætti að þessi kvikusöfnun er á 4-5 kílómetra dýpi og núna eru engar vísbendingar skýrar um það að kvikan sé að leita upp í jarðskorpuna.“

Biður fólk að gæta að sér

Þá segir hann jafnframt að á meðan þessi kvikusöfnun eigi sér stað sé ljóst að hún leiði af sér jarðskjálfta sem komi í hrinum en líkt og Veðurstofan hafi greint frá geti þeir orðið verulega öflugir.  

„Það er því vert að huga að því hvernig fólk getur haft gát á sér gagnvart þeim áföllum sem kunna að skapast af jarðskjálftanum. Ef einhverjar vísbendingar benda til þess að breyting sé að verða þar á og þessi kvika sé að nálgast jarðskorpuna þá er varað sérstaklega við því.“

Spurður að lokum hvort almannavarnadeild hafi áhyggjur af fólki á svæðinu segir Sólberg áherslu hafa verið lagða á að allir á svæðinu hafi gát á sér og sínu.

„Bæði almannavarnadeild og almannavarnakerfið hafa beðið fólk að fylgjast vel með og að það bregðist bæði við fyrirbyggjandi aðgerðum og gjörðum og hafi klárar viðbragðsáætlanir eða viðbragð til að bregðast við ef einhver óvænt hætta verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert