Elfa hafði betur gegn ríkinu og fær gögn afhent

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar hafði betur gegn ríkinu og …
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar hafði betur gegn ríkinu og gæti framundan orðið nokkuð mikið að gera hjá starfsfólki Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fjármála- og efnahagsráðherra við að svara erindum annarra forstöðumanna ríkisstofnana. Samsett mynd

Elfa Ýr Gylfa­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri fjöl­miðlanefnd­ar, hafði í gær bet­ur í Héraðsdómi Reykja­vík­ur gegn ís­lenska rík­inu í máli sem hún höfðaði til að fá gögn sem tengj­ast ákvörðun fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins um launa­kjör for­stöðumanna rík­is­stofn­ana. Á hún rétt á því að ákvörðun um launa­kjör henn­ar verði út­skýrð og aðgangi að skýr­ing­um á ákvörðunum um launa­flokka annarra rík­is­for­stöðumanna. Í kjöl­farið gætu fleiri rík­is­for­stöðumenn einnig óskað sömu gagna og hún.

Stjórn­valdsákvörðun eða -fyr­ir­mæli

Í mál­inu var sér­stak­lega tek­ist á um hvort ákv­arðanir fjár­málaráðherra um föst laun fyr­ir dag­vinnu og önn­ur laun er starfi rík­is­for­stöðumanna fylgja telj­ist vera stjórn­valdsákv­arðanir eða stjórn­valds­fyr­ir­mæli og þar með hvort fylgja beri regl­um stjórn­sýslu­laga eða ekki.

Sé um stjórn­valdsákvörðun að ræða er það ákvörðun sem á við um rétt eða skyldu ákveðinna starfs­manna, en stjórn­valds­fyr­ir­mæli eru hins veg­ar al­menn og bein­ast að ótil­greind­um aðilum.

Hafði Elfa farið fram á rök­stuðning fyr­ir því hvernig launa­kjör henn­ar voru ákvörðuð með breyt­ing­um á lög­um þegar launa­ákv­arðanir fyr­ir for­stöðumenn rík­is­stofn­ana voru færðar frá kjararáði. Voru við það til­efni ákv­arðaðir grunn­launa­flokk­ar og und­ir­flokk­ar fyr­ir hvert embætti.

Hækk­un flokka en ekki hækk­un launa

Í sept­em­ber árið 2019 var end­ur­skoðun á grunn­mat­inu, en það leiddi ekki til hækk­un­ar á laun­um fram­kvæmda­stjóra fjöl­miðlanefnd­ar þrátt fyr­ir hækk­un á tveim­ur matsþátt­um. Sendi Elfa við þetta til­efni er­indi til kjara- og mannauðsráðs og óskaði rök­stuðnings á þess­ari stjórn­valdsákvörðun sem og yf­ir­liti yfir það hvernig all­ir for­stöðumenn rík­is­stofn­ana væru metn­ir sam­kvæmt þeim þátt­um sem grunn­mat fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins byggði launa­setn­ingu sína.

Ráðuneytið hafnaði þeirri beiðni henn­ar og vísaði til þess að grunn­matið væri heild­stæð nálg­un sem byggði á grund­velli sam­ræmds mat­s­kerf­is. Það væri sem sagt al­veg óháð því hver gegndi starf­inu og að vegna þess teld­ist Elfa ekki aðili máls í skiln­ingi stjórn­sýslu­laga og ætti því ekki rétt á rök­stuðningi eða aðgangi að umbeðnum gögn­um.

Umboðsmaður Alþing­is tók af­stöðu með Elfu

Elfa kvartaði fyrst yfir þess­ari niður­stöðu til umboðsmanns Alþing­is sem tók und­ir með henni og sagði ákvörðun ráðherra telj­ast ákvörðun um rétt og skyldu manns og væri þar með stjórn­valdsákvörðun. Því byggði synj­un­in á röng­um laga­grund­velli og var því beint til ráðuneyt­is­ins að taka málið til meðferðar að nýju.

Elfa sendi svo er­indi á ný á ráðuneytið og óskaði eft­ir því að það yrði tekið fyr­ir, en þetta var í janú­ar 2021. Svaraði ráðuneytið í maí sama ár og var þar ít­rekuð afstaða ráðuneyt­is­ins sem sagðist telja álit setts umboðsmanns ekki í sam­ræmi við það sem lagt hefði verið upp með við setn­ingu lag­anna á sín­um tíma. Í fe­brú­ar í fyrra var kynnt nýtt frum­varp sem ráðuneytið taldi eiga að taka af öll tví­mæli varðandi þetta þannig að ákv­arðanir um grunn­mat starfa for­stöðumanna rík­is­stofn­ana væru stjórn­valds­fyr­ir­mæli en ekki stjórn­valdsákv­arðanir.

Ráðuneytið ósam­mála umboðsmanni

Í mál­inu vís­ar Elfa til þess að for­stöðumenn gætu ekki samið um laun sín held­ur væru ákv­arðan­irn­ar tekn­ar ein­hliða. Þá megi þeir ekki taka þátt í verk­falli eða sam­bæri­leg­um aðgerðum. Ráðuneytið sagði hins veg­ar að ákvæði stjórn­sýslu­laga, þar á meðal rök­stuðning­ur um ákv­arðanir og aðgang­ur að upp­lýs­ing­um og gögn­um ætti ekki við hvað varðaði kröf­ur henn­ar. Fór Elfa því með málið fyr­ir dóm­stóla.

Í niður­stöðukafla dóms­ins er meðal ann­ars farið yfir að ráðherra ákveði for­send­ur grunn­mats­ins og starfs­kjör for­stöðumanna og að í stjórn­sýslu­lög­um komi fram að um stjórn­valdsákv­arðanir sé að ræða þegar um rétt eða skyldu mann sé að ræða. „Þegar ákvörðun um laun rík­is­starfs­manns bygg­ist ekki á samn­ingi held­ur ein­hliða ákvörðun stjórn­valds verður að ætla, miðað við þau sjón­ar­mið sem hér hafa verið rak­in, að slík ákvörðun telj­ist stjórn­valdsákvörðun,“ seg­ir í dóm­in­um.

Skipt­ir ekki máli hvaða nafni stjórn­völd kalla ákvörðun­ina

Dóm­ur­inn seg­ir jafn­framt að ekki skipti máli hvaða nafni stjórn­völd kalli ákvörðun­ina. „Það hvort stjórn­vald kalli ákvörðun sína stjórn­valdsákvörðun eða stjórn­valds­fyr­ir­mæli ræður ekki eitt og sér úr­slit­um um það hvort um stjórn­valdsákvörðun sé að ræða eða ekki. Ákvarðanir um for­send­ur grunn­mats geta haft ein­kenni al­mennra stjórn­valds­fyr­ir­mæla en það er hlut­verk ráðherra sam­kvæmt 39. gr. a laga nr. 70/​1996 að taka ákvörðun um laun viðkom­andi for­stöðumanns og beita þess­um regl­um um grunn­mat þegar ákvörðun er tek­in sem varðar það til­tekna starf sem viðkom­andi for­stöðumaður gegn­ir.“

Með vís­an í þetta seg­ir í dómn­um að ákvörðun fjár­mála- og efna­hags­ráðherra um kjör Elfu sé stjórn­valdsákvörðun sem leiðir til þess að fylgja skuli stjórn­sýslu­lög­um. Þar með eigi hún rétt á aðgangi að þeim gögn­um sem varði ákvörðun henn­ar um laun og rök­stuðning fyr­ir ákvörðun­inni. Er því fall­ist á kröfu henn­ar.

Gæti haft for­dæm­is­gildi fyr­ir aðra for­stöðumenn

Málið gæti haft tals­verð áhrif út fyr­ir mál Elfu, en sam­kvæmt sam­an­tekt Rík­is­end­ur­skoðunar í fyrra var fjöldi rík­is­stofn­ana 156. Gæti niðurstaða þessa dóms haft for­dæm­is­gildi þannig að þeir for­stöðumenn gætu einnig óskað eft­ir rök­stuðningi og gögn­um um ákvörðun ráðuneyt­is­ins um launa­kjör þeirra.

Elfa hafði einnig farið fram á miska­bæt­ur, en dóm­ur­inn hafnaði þeirri kröfu. Gjaf­sókn var veitt upp á 1,5 millj­ón­ir.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert