Veðurstofu Íslands bárust tilkynningar allt frá Borgarfirði til Selfoss um stóra skjálftann sem varð við Þorbjörn í nótt. Grindvíkingar fundu vel fyrir honum einnig en hann mældist 4,2 að stærð og upptök hans voru rétt vestan við Bláa lónið.
Yfir 700 skjálftar hafa mælst frá miðnætti á Reykjanesskaga en virknin var hvað mest á milli þrjú og fimm í nótt.
Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir hrinuna enn standa yfir en þó hafi aðeins dregið úr virkni hennar. Það sé þó langt frá því að vera rólegt á skjálftamælum Veðurstofunnar þennan morguninn.
Sjö skjálftar hafa mælst yfir þremur að stærð frá því á miðnætti. Klukkan 4.25 mældist 4,1 stigs skjálfti, sex mínútum síðar reið 3,5 stiga skálfti yfir og átta mínútur í fimm annar af sömu stærð.