Lögreglan gerir kröfu fyrir héraðsdómi um gæsluvarðhald yfir sex einstaklingum í skotárásarmálinu í Úlfarsárdal.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta í samtali við mbl.is en einum af þeim sjö einstaklingum sem voru handteknir í gær í tengslum við málið hefur verið sleppt.
Þeir sex einstaklingar sem krafist er gæsluvarðhalds yfir verða leiddir fyrir dómara einn í einu nú síðdegis.
Grímur segir að nokkrir menn hafi staðið fyrir utan Silfratjörn 2 þegar skotárásin átti sér stað í fyrrinótt. Staðfest hefur verið að skot hafi hæft einn mann sem var fluttur á sjúkrahús en var útskrifaður þaðan nokkru síðan. Þá er lögreglan með það til skoðunar hvort annar maður hafi hlotið minniháttar áverka eftir skotárásina að sögn Gríms.
Þá segir Grímur að nokkrar húsleitir hafi verið framkvæmdar í gær í tengslum við handtökurnar en ekki sé tímabært að greina frá því hvað hafi komið út úr þeim.