Kvika heldur áfram að flæða í innskotið

Hratt landris hefur mælst nærri Svartsengi og Bláa lóninu undanfarna …
Hratt landris hefur mælst nærri Svartsengi og Bláa lóninu undanfarna daga. mbl.is/Hákon Pálsson

Nýjustu gögn Veðurstofunnar sýna enga hröðun á landrisinu við Þorbjörn í kjölfar skjálftavirkninnar fyrr í dag. Þá sjást engar skýrar breytingar sem benda til þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs.

Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Veðurstofunni.

Bæði GPS-gögn og gervitunglamyndir staðfesti þó að kvika haldi áfram að flæða í innskotið sem myndast hefur undir svæðinu norðvestur af Þorbirni á um 4 km dýpi.

Um 450 skjálftar hafa mælst á svæðinu í kringum Þorbjörn frá kl. 15 í dag. Virknin er ennþá þónokkur, en skjálftarnir eru heldur minni en fyrr í dag.

Engin merki sjást um óróa sem gæfi til kynna að gos væri í vændum.

Gera má ráð fyrir fleiri skjálftum

„Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í grynnkandi skjálftavirkni og vaxandi óróa sem eru afar tíðir og litlir skjálftar. Samhliða því ætti að mælast skyndileg aflögun (gliðnun) á yfirborði á GPS-mælum,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Einnig er minnt á að gera megi ráð fyrir að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og að skjálftar yfir 4 að stærð gætu fundist í byggð.

„Einnig má gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Grjóthrun getur orðið í kjölfar öflugra skjálfta, því skal fara með varúð við brattar hlíðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert