„Mér var verulega brugðið“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að sér hafi verið verulega brugðið. …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að sér hafi verið verulega brugðið. Hún vill rýmka rannsóknarheimildir lögreglunnar. Samsett mynd

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að sér hafi verið verulega brugðið þegar hún frétti af skotárásinni í Úlfarsárdal í gær þar sem einn maður særðist. Sjö hafa verið handteknir vegna málsins. Hún vonar að nýtt frumvarp sitt um breytingar á lögreglulögum nái framgangi á Alþingi.

„Mér var verulega brugðið og ég hef haft mjög miklar áhyggjur af auknu ofbeldi og auknum vopnaburði. Þá er ég sérstaklega að vísa til hnífa. Við erum að sjá mikla fjölgun í hnífaárásum og það finnst mér algjörlega óþolandi og eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við í okkar samfélagi,” segir Guðrún, spurð út í árásina í gær að loknum ríkisstjórnarfundi.

Hún segir að svo virðist sem átök hafi í gær færst upp á annað plan með skotárásinni. Beitt hafi verið skotvopni og slíku taki hún mjög alvarlega.

„Ég sem dómsmálaráðherra ber ábyrgð á löggæslu í landinu og öryggi íbúanna hér. Lögreglan hefur verið að lýsa yfir áhyggjum sínum yfir auknu ofbeldi í nokkuð langan tíma, aukinni skipulagðri glæpastarfsemi og meiri hörku,” bætir hún við.

Blóð fyrir framan fjölbýlishúsið þar sem árásin var gerð.
Blóð fyrir framan fjölbýlishúsið þar sem árásin var gerð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þræðir sem virða engin landamæri

Ráðherrann nefnir frumvarpið sem hún lagði fram í samráðsgátt stjórnvalda um breytingar á lögreglulögum sem einn lið í að bregðast við ábendingum lögreglu. Í frumvarpinu leggur hún til að lögreglan fái auknar heimildir til að sinna sínu starfi í þágu afbrotavarna. Um er að ræða auknar heimildir til gagnaöflunar, gagnavinnslu og gagnamiðlunar.

„Ég vil taka það mjög skýrt fram að löggæsla hefur tekið gríðarlegum breytingum á síðustu 10 til 15 árum. Það er ekki hægt að líkja því saman að þetta sé sambærilegt starf að vera lögreglumaður í dag eins og þá. Öll mál sem koma á borð lögreglu krefjast gríðarlegrar rannsóknarvinnu og þá sérstaklega á gögnum. Í öllum málum í dag þarf að rannsaka síma, það þarf að rannsaka tölvur, það þarf að rannsaka stafrænu skrefin okkar. Líka, nánast í öllum brotum, þá tengjast þau í stærra net. Þess vegna verðum við að veita lögreglunni okkur tæki og heimildir til að geta fylgt þessum þráðum og þessir þræðir þeir virða engin landamæri,” greinir Guðrún frá.

„Við verðum að geta rannsakað og komið í veg fyrir skipulagða brotastarfsemi, sem er kannski tengd öðrum löndum, og unnið þar með í þéttri samvinnu við lögreglu í öðrum löndum.”

Fjölbýlishúsið þar sem árásin var gerð.
Fjölbýlishúsið þar sem árásin var gerð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjartsýn að eðlisfari

Samskonar frumvarp um auknar heimildir lögreglu var ekki samþykkt á síðasta löggjafarþingi. Guðrún kveðst vera bjartsýn að eðlisfari og líta svo á að kannski hafi það bara verið ágætt að það fékk ekki framgang.

„Í meðferð þingsins komu fram athugasemdir sem ég held að hafi bara verið gott. Við höfum núna tekið tillit til þessara athugasemda þannig að frumvarpið er breytt núna,” segir hún og vonar að breytingarnar þýði að málið fái farsælan framgang á Alþingi. Frumvarpið segir hún lið í afbrotavörnum, þjóðaröryggi, verndun ríkisins og að uppræta skipulagða glæpastarfsemi.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alvarleg staða í Svíþjóð

Spurð út aukin afbrot tengd innbyrðis baráttu glæpagengja hérlendis segir hún slíkt vera slæm tíðindi ef það sé raunin.

„Við höfum séð þetta í nágrannalöndum okkar, bæði í Danmörku, Noregi og sérstaklega í Svíþjóð þar sem er orðin grafalvarleg staða. Við þurfum að gera allt sem við getum til þess að koma í veg fyrir þessa þróun.”

Guðrún Hafsteinsdóttir.
Guðrún Hafsteinsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert