Stundarbrjálæði vegna 5.000 kr. kostaði annan mann lífið

Manndrápið átti sér stað fyrir utan verslun í Hafnarfirði.
Manndrápið átti sér stað fyrir utan verslun í Hafnarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Ung­ur maður hlaut í dag 10 ára dóm fyr­ir mann­dráp á bílastæði við verslunarhúsnæði í Hafnar­f­irði. Tveir aðrir ung­ir menn hlutu tveggja ára dóm fyr­ir sinn þátt í árás­inni, en brot þeirra flokkaðist und­ir vís­vit­andi lík­ams­árás.

Sautján ára göm­ul stúlka hlaut tólf mánaða skil­orðsbund­inn dóm til fimm ára fyr­ir brot á hjálp­ar­skyldu, en hún tók árás­ina upp. 27 ára gamall pólskur karlmaður var myrtur í árásinni.

Atburðarásin náðist að miklu leyti á upptöku í nokkrum mismunandi myndskeiðum. Virðast þau sýna það að upptök árásarinnar hafi verið vegna meintrar 5.000 króna fíkniefnaskuldar. Fórnarlambið var stungið sex sinnum og lést af stungusári beint í hjartað. Alls liðu 8-9 mínútur frá upphafi árásar og þar til fórnarlambið lá í valnum.

Fyrr um kvöldið fyrir morðið höfðu fjórmenningarnir, sem voru sakfelldir, og fórnarlambið hist á bar þar sem fórnarlambið innbyrti eina eða tvær línur af kókaíni sem verðandi banamaður hans veitti honum. Allir þeir ákærðu í málinu urðu vitni af þessu. Samkvæmt dómnum er ekkert sem bendir til þess að fórnarlambið og hin ákærðu hafi ekki farið út af barnum í sátt.

Krafðist þess að fá 5.000 krónur greiddar

Lykilsönnunargögn ákæruvaldsins voru hljóð- og myndupptökur ákærðu frá bílastæðinu við Fjarðarkaup og samsett myndskeið af sömu atburðarás.

Fyrsta myndbandið kemur í kjölfar þess að allir, þar með talið fórnarlambið, fóru út af barnum. Dómurinn tekur fram að ekkert bendi til þess að alvarlegt ósætti hafi komið upp á milli þeirra ákærðu og fórnarlambsins, og enn fremur að ekkert bendi til þess að fórnarlambið hafi verið árásargjarnt gagnvart hinum ákærðu.

Konan sem er sakfelld fyrir brot á hjálparskyldu tók þá myndband af því þegar orðaskipti hefjast á milli fórnarlambsins og banamannsins á bílastæði Fjarðarkaupa.

Banamaðurinn talar ensku, segist hafa gefið fórnarlambinu eina línu af fíkniefnum fyrir 5.000 krónur og fórnarlambið á móti gefið honum einn bjór. Banamaðurinn krefst þess ítrekað að brotaþoli hlusti, heimtar athygli hans á meðan fórnarlambið er að tala, segir fórnarlambið ýmist hafa fengið fjórar eða fimm línur og skuldi banamanninum fyrir.

Fórnarlambið spyr svo ítrekað skrækum rómi hvort að banamaðurinn sé með hníf á sér. Orðaskiptin verða harkalegri og endar fyrsta upptakan á því að banamaðurinn krefst þess að fórnarlambið greiði sér 5.000 krónur.

Leikur kattarins að músinni

Á næstu upptöku sést banamaðurinn liggja á fórnarlambinu og spyrja fórnarlambið: „Viltu fá fokking hníf í hálsinn á þér, ha?“

Bætir banamaðurinn við: „Gefðu mér 5.000 krónur samstundis.“ Að því loknu er stappað á höfði fórnarlambsins og sparkað í hausinn á honum.

Á þriðju upptökunni sést fórnarlambið hrökklast í burtu eftir að hafa liðið þung högg og elta hin ákærðu hann og banamaðurinn krefst áfram 5.000 króna. Dómurinn segir að ekkert geti stutt framburð þeirra ákærðu um að þeim hafi stafað ógn af fórnarlambinu í þriðju upptökunni. Lýsir dómurinn þessari upptöku svona:

„Það sem á sömu upptöku sést verður lýst með orðunum „leikur kattarins að músinni“ og hér voru kettirnir þrír.“

Felldur í jörðina og stunginn

Á fjórðu upptökunni sjást átök fórnarlambsins og hina ákærðu og í fimmtu upptökunni færist enn meiri hiti í leikinn. Fórnarlambið er fellt í jörðina og ítrekað lamið. Banamaðurinn stígur svo upp af jörðinni og kveðst hafa stungið fórnarlambið þrisvar sinnum. Upptakan heldur áfram og högginn halda áfram að dynja. Banamaðurinn virðist stinga hann á ný í bakið þrisvar sinnum.

Síðasta upptakan varir í 2 sekúndur. Á henni sést banamaðurinn sitja á gangstéttarkantinum, með blóð og sár á hægri hendi og haldandi á opnum vasahnífnum.

Ekki sést blóð á hnífsblaði. Annar hvor meðákærðu heyrist segja: „Heyrðu, við þurfum að dippa núna sko“ og annar hvor þeirra bætir við: „Let's go“.

Líklega um stundarbrjálæði að ræða

Í dómnum kemur fram að árásin hafi verið algjörlega af hálfu þeirra ákærðu.

„[...]ekkert sem styður að brotaþoli hafi neitað að greiða 5.000 króna fíkniefnaskuld, ekkert sem styður að brotaþoli hafi stofnað til átaka á bílasvæðinu, ekkert sem styður að ákærði hafi orðið hræddur við eða þurft að hræðast brotaþola og loks ekkert sem styður að ákærða hafi á nokkrum tímapunkti mátt standa ógn af brotaþola.”

Stúlkan sem tók ódæðið á upptöku kvaðst ekki hafa vitað að fórnarlambið hafi verið stungið. Dómurinn tekur lítið mark á því þar sem hún sendi sjálf skilaboð á vinkonu þess efnis að banamaðurinn hefði stungið fórnarlambið sex sinnum, ásamt fleiri skilaboð sem gáfu til kynna að hún vissi vel að um stunguárás væri að ræða, þá um kvöldið.

Í dómnum kemur fram að ekkert geti skýrt aðför hinna ákærðu að fórnarlambinu og að meint 5.000 króna fíkniefnaskuld sé líklega ekki útskýringin á morðinu, þó það hafi mögulega verið upptökin.

„Má helst ætla að einhvers konar stundarbrjálæði hafi gripið ákærða. Verður trauðla sagt að hann eigi sér einhverjar málsbætur, ef frá er talin játning hans á eigin framferði samkvæmt ákæru,“ segir í dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert