Búið er að setja svartan ruslapoka á styttuna af séra Friðriki Friðrikssyni sem stendur við Bernhöftstorfuna í hjarta miðborgarinnar.
Mál tengd séra Friðriki komust í kastljós fjölmiðlanna í kjölfar nýútkominnar bókar Guðmundar Magnússonar, sagnfræðings og fyrrverandi blaðamanns Morgunblaðsins. Í bókinni greinir Guðmundur frá því að séra Friðrik hafi leitað á ungan dreng, sem nú er kominn hátt á fullorðinsár.
Mikið hefur verið rætt um afdrif styttunnar í kjölfar útgáfu bókarinnar, þ.e. hvort að styttan eigi að fá að standa áfram, eða hvort að eigi að taka hana niður.
Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi Vinstri grænna, óskaði meðal annars eftir hugmyndum af nýrri styttu í stað styttunnar af Friðriki.
Ósáttir einstaklingar virðast nú hafa tekið málið í sínar hendur því búið er að koma svörtum ruslapoka fyrir yfir efri búk styttunnar.
Í síðustu viku óskaði mbl.is eftir svörum frá Reykjavíkurborg um það hvort borgin hygðist endurskoða tilverurétt minnismerkisins og hvort einhverjar verklagsreglur væru fyrir hendi þegar um minnismerki er að ræða og mál af þessu tagi kæmu upp.
Reykjavíkurborg svarar því skriflega til að málið væri nýuppkomið og að margir starfsmenn væru í fríi vegna vetrarleyfa. Því þyrfti meiri tíma til að svara fyrirspurninni efnislega. Enn hafa þó ekki borist svör frá Reykjavíkurborg.