„Þetta er hugmynd sem kom fram í einu af fyrstu innskotunum, en þá fengum við upplyftingu sem fjaraði út,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og jarðefnafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður álits á hugmynd sem Ólafur Flóvenz, sérfræðingur í jarðhita og jarðvísindum, ræddi við mbl.is þess efnis að landrisið í Svartsengi kynni að vera af völdum gass sem streymdi frá kviku djúpt niðri, en ekki endilega kviku sem væri að brjóta sér leið upp á yfirborðið.
Ármann segir að erfitt sé að segja af eða á með þetta þar sem mælingar skorti. „En núna er upplyftingin mjög ákveðin og mjög hröð. Það er ekkert annað en kvika sem getur gert þetta, gas gerir þetta ekki,“ segir Ármann.
Í viðtalinu við Ólaf kemur fram að ef bæði rúmmál út frá mælingu á landrisi og heildarmassi út frá þyngdarmælingum væri þekkt, mætti reikna út eðlismassa þess efnis sem veldur landrisinu. Þannig mætti greina hvort um væri að ræða gas með lítinn eðlismassa eða kviku með háan eðlismassa.
„Það er alveg rétt,“ segir Ármann, „ef við hefðum þyngdarmælingar. Árið 2021 kom upp sú hugmynd að menn settu upp net af mælipunktum fyrir þyngdarmælingar, því þær eru mjög gagnlegar til að þekkja kvikuna. En það þýðir ekkert að gera það núna, því við hefðum þurft að hafa þyngdarmælingar fyrir til viðmiðunar,“ segir Ármann spurður hvort þetta mætti gera nú.
Spurningu um hvort gagnlegt kunni að vera til framtíðar litið að setja út net af þyngdarmælipunktum til að auðvelda greiningu á orsökum landriss tekur Ármann undir það
„Vandamálið er að það hafa verið nokkrar innspýtingar þarna og það hefðu þurft að vera reglulegar þyngdarmælingar til samanburðar,“ segir hann. „Það er nauðsynlegt að byrja á þessu miðað við ástandið eins og það er í dag og setja út net af mælipunktum yfir Reykjanesið, því það hjálpar mikið til að vita hvort kvika er komin inn og hvenær er von á henni. Eins og þetta er núna þá sjáum við kannski með nokkurra klukkustunda fyrirvara að það sé að stefna í eldgos. Það er gagnlegra að vera með meira af mælingum, það bara hjálpar, eykur öryggi og lengir viðbragðið,“ segir Ármann Höskuldsson.