Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segist skilja vel þann kvíða sem margir íbúar Grindavíkur hafa fundið fyrir síðustu daga vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga og mögulegrar hættu sem gæti skapast ef til eldgoss kæmi við fjallið Þorbjörn.
„Við höfum alveg fundið fyrir þessum kvíða hjá mörgum og það er svo sem ekkert nýtt,“ sagði Fannar á íbúafundi í Grindavík í gær.
„Þetta er nú oft kannski sama fólkið sem einhvern veginn á mjög erfitt með að fást við þetta og við skiljum þetta vel, þess vegna erum við meðal annars að halda þennan fund og reyna að koma upplýsingum á framfæri. “
Fannar sagði bæjarfélagið leita ýmissa leiða til þess að koma til móts við þá sem óttist afleiðingar mögulegs eldgoss og við þá sem þyrftu aðstoð ef til þess kæmi að rýma bæinn, sem hann telur ólíklegt.
„Við erum að reyna að finna fleiri leiðir til þess að nálgast það fólk sem á í mestum erfiðleikum eins og við höfum gert í fyrri gosum og aðdraganda þeirra með því að bjóða upp á minni fundi í menningarhúsinu þar sem við getum kannski talað betur saman við frummælendur.
Þar erum við með sálfræðinga, byggingaverkfræðinga, vísindamenn og svo framvegis. Þannig að við höldum áfram að aðstoða þá sem okkur finnst helst þurfa á því að halda,“ sagði Fannar.
„Það sama á við um eldri borgara, við höfum hitt þá núna og þá sem eiga kannski ekki möguleika á því að koma sér sjálfir ef það þyrfti að koma til rýmingar.
Sumir halda að það sé nauðsynlegt að ef eitthvað kemur upp á að yfirgefa bæinn í skyndi, en það er mjög ólíklegt að til þess komi. Jafnvel þó að það sé byrjað að renna einhversstaðar tiltölulega nálægt okkur þá tekur langan tíma að það komist í bæinn og svo eru ýmsar varnir sem hægt er að bregðast við með í millitíðinni.
Ótti og kvíði er bara eins og margt annað það er einfalt að segja þú þarft ekki að hafa áhyggjur. Við þurfum að hafa áhyggjur en við erum kannski ekki alltaf raunsæ í öllum tilfellum.“
Aðspurður hvort gerðar hafi verið ráðstafanir ef ske kynni að börn sem eiga foreldra sem vinni utan Grindavíkur yrðu innlyksa ef þyrfti að rýma bæinn sagði Fannar að svo væri.
„Það er búið að gera ráð fyrir því, til dæmis á leikskólum er ákveðið plan. En það eru settir mannaðir póstar við allar aðkomuleiðir inn og út úr bænum og þar er lögreglan tilbúin og ef það eru einhver sérstök slík tilfelli þá er fólki auðvitað hleypt inn í bæinn ef það þykir óhætt að gera það á annað borð. Þannig að bæjarfélaginu hvorki lokað fyrir björgun né öðrum sem eiga þangað brýnt erindi,“ sagði Fannar.
Fannar bætti við til stæði að loka fyrir aðkomu ferðamanna að gossvæðinu ef svo bæri undir.
„Ferðamenn eru líka alveg ólmir í að komast þegar það fer að gjósa. Þess vegna erum við hreinlega að reyna að loka fyrir það að það sé verið að trufla umferð björgunarsveita og annara viðbragðsaðila með því að fylla vegina með bílum sem ekkert eiga þangað erindi.“
Loks sagði Fannar bænum bíða stórt verkefni næstu daga, en í því fælist jafnframt tækifæri.
„Þetta var ekki í starfslýsingunni minni og ég held að það sé reynslan að þetta sé gríðarlega stórt verkefni til þess að takast á við. Þetta hefur gengið ágætlega hjá okkur hingað til og það er líka ákveðinn lífsreynsla og kannski tækifæri til þess að reyna að standa sig í þessu ásamt öllu þessu góða fólki sem kemur að þessum málum.“