Stóru línur kröfugerðarinnar myndaðar í dag

Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, á formannafundi ASÍ.
Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, á formannafundi ASÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir það ástand sem fólk upplifi í dag tilkomið af hagnaðardrifinni verðbólgu sem komi verkafólki ekki við.

Formannafundur ASÍ stendur yfir á Hótel Nordica.

Vill verkalýðshreyfinguna sameinaða að borðinu

Finnbjörn segir í samtali við mbl.is að verkafólk sé fórnarlamb allra þeirra hækkana á matvöru og bankaþjónustu sem hafa átt sér stað hér á landi. Segir hann að verkalýðshreyfingin vilji ganga sameinuð að samningaborðinu.

„Við viljum kalla alla að borðinu og það er stóra málið að þetta er mjög fjölþætt verkefni sem mjög margir þurfa að koma að.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og 1. varaforseti ASÍ, og …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og 1. varaforseti ASÍ, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýsðfélags Akraness, á formannafundi ASÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hafa skyldum að gegna gagnvart öðrum en almenningi“

Forseti ASÍ kallar jafnframt eftir ábyrgð stjórnmálamanna gagnvart launafólki í landinu.

„Fyrirtækin, bankaþjónustan og aðrir hafa aldrei þurft að fjölmenna niður á Austurvöll til að krefjast einhvers einhverra hluta vegna. Ég geri ráð fyrir að þeir hafi þá betri aðgang að stjórnmálamönnum sem eru að laga aðstæður þeirra og kringumstæður sem launafólk hefur ekki. Við höfum bara þetta eina tækifæri þegar kemur að kjarasamningum og við ætlum að nýta það núna.“

Finnbjörn sagði í setningarræðu sinni á fundinum í dag upplifun verkalýðshreyfingarinnar þá að stjórnmálamenn hafi skyldum að gegna gagnvart öðrum en almenningi.

„Við getum auðvitað velt því fyrir okkur hvort það stjórnmálafólk sem nú er við völd í landinu skorti ábyrgðartilfinningu. Við vitum að skeytingarleysið um hag launafólks er algjört. En eru þau ábyrgðarlaus? Ég tel svo ekki vera. Þau hafa bara skyldum að gegna gagnvart öðrum en almenningi í landinu, sem skýrist af aðgerðum á kjörtímabilinu,“ sagði Finnbjörn í ræðu sinni í dag.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann sagði samfélag okkar vera í verulegum vanda statt og ráðamenn kunni þá lausn eina að auka álögur á almenning.

„Við sáum um síðustu áramót hvernig ríkisstjórnin skrúfaði upp verðbólguna með því að hækka skatta og krónugjöld og í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er boðuð sama stefna; nú sem fyrr koma kerfisbreytingar ekki til greina til að tryggja að útgerðin greiði eðlilegt gjald af auðlindarentu eða auðugt fólk borgi hærri skatta af fjármagnstekjum og hætti tekjutilflutningi.

Við sjáum að illa sködduð tekjutilfærslukerfin ná ekki lengur að uppfylla tilgang sinn. Ójöfnuðurinn fer vaxandi og nú er svo komið að fólk í fullri vinnu nær ekki að láta enda ná saman. Lægst launaða verkafólkið stritar en býr við fátækt. Ástandið er orðið eins og við þekkjum í Bandaríkjunum þar sem fólk í fullri vinnu fær „matarmiða” vegna þess að launin nægja ekki til framfærslu,“ sagði Finnbjörn í ræðunni og dró ekkert undan.

Formenn, forseti og varaforsetar skipi viðræðunefnd

Þá sagði hann í ræðu sinni að á fundi formanna landssambanda og stærstu aðildarfélaga á þriðjudag hafi náðst samstaða um að ASÍ-félögin standi saman að viðræðum við viðsemjendur innan Samtaka atvinnulífsins og við fulltrúa ríkisvaldsins um sameiginleg mál.

Sagði hann þá ákvörðun svo hafa verið rædda á fundi miðstjórnar ASÍ á miðvikudag.

„Þar var ákveðið að formenn landssambanda og stærstu félaga myndi viðræðunefndina ásamt forseta og varaforsetum Alþýðusambandsins,“ sagði hann í ræðunni.

Finnbjörn kveðst aðspurður bjartsýnn á að formennirnir muni sameinast um að þétta raðirnar með þessum hætti en sagði þó að ekki væri hægt að bindast neinu í dag því samningsumboðið liggi hjá samninganefndunum.

„En eftir þennan fund verðum við komin með stóru línurnar hvað varðar kröfur á ríkisvald og sameiginlegar kröfur á atvinnurekendur. Við förum svo bara að vinna úr því strax í næstu viku.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sat formannafundi ASÍ.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sat formannafundi ASÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls ekki er algilt að verkalýðshreyfingin setjist svo samstillt að samningaborðinu þó fordæmi séu fyrir því og athygli vekur að viðræðunefndin verði hugsanlega skipuð formönnum landssambanda og stærstu félaga ásamt forseta og varaforsetum ASÍ.

Í máli Finnbjörns á fundinum kom fram að hann hafi tekið að sér embætti forseta ASÍ í fullvissu þess að verkalýðshreyfingin hafi ætlað að snúa bökum saman og að persónulegar erjur væru að baki.

„Ég veit að við náum engu fram í þeim stóru verkefnum sem við okkur blasa ef við ætlum að viðhalda klofningi og ágreiningi. Ef það er einlægur ásetningur okkar að nýta ekki styrkinn sem felst í fjöldanum og samstöðunni fullyrði ég að sérhagsmunaverðirnir og fjármagnsöflin munu ekki hika við að færa sér í nyt svo augljós veikleikamerki,“ sagði hann í ræðu sinni.

Segir hann að ef af verði komi samninganefnd hreyfingarinnar til með að vera mjög sterk og vel skipuð. 

„Ég held að við getum varla haft sterkari samninganefnd en það,“ segir Finnbjörn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert