„Ég hef áhyggjur af því að við séum ekki nógu vel undirbúin. Þetta er alvarleg staða sem er komin upp,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði í samtali við Morgunblaðið.
Þorvaldur segir nauðsynlegt að menn séu frekar búnir undir allra verstu sviðsmyndina, þó ekki sé víst að hún raungerist.
Fram hefur komið að efnasamsetning kvikunnar sé þess eðlis að hraun myndi renna mjög hratt yfir kæmi til goss.
„Þetta er allra versta sviðsmyndin og alls ekki víst að hún raungerist, en ef svo fer erum við að tala um tiltölulega stuttan viðbragðstíma, mínútur en ekki klukkutíma, ef kvikan kemur upp nálægt byggð. Þá er nú betra að vera búinn að fara í viðeigandi aðgerðir áður en kemur að gosi,“ segir hann.
Þorvaldur bendir á að gosin við Fagradalsfjall hafi byrjað fremur rólega, þótt kvikurennsli frá síðasta gosi hafi farið upp í 40 rúmmetra á sekúndu.
„Í þessu tilviki getum við verið að tala um nokkur hundruð rúmmetra á sekúndu og þá getur atburðarásin orðið mjög hröð, þótt í stuttan tíma sé, og þá höfum við afskaplega stuttan viðbragðstíma. Kvikan í Fagradalsfjalli kom af meira dýpi og í rólegheitunum, þannig séð. En það sem er að gerast núna er að kvikan er að safnast fyrir tiltölulega grunnt, á 4 til 5 kílómetrum, og þrýstingurinn meiri og ef tankurinn brestur gerist það með meira afli. Það er ekkert sem segir að yfirborðið haldi ekki og þetta getur stoppað, en maður verður samt að gera ráð fyrir vestu tilfellunum. Það er betra að taka mið af þeim og gera ráðstafanir í samræmi við það,“ segir Þorvaldur.