Dregur úr skjálftum en landris heldur áfram

Það dregur úr skjálftum en landris heldur áfram.
Það dregur úr skjálftum en landris heldur áfram. mbl.is/Hákon

Töluvert hefur dregið úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga frá klukkan 17.30 í gær en landris heldur áfram. Alls hafa um 900 skjálftar mælst á síðustu tólf klukkustundum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

„Skjálftavirknin hefur því minnkað talsvert frá því í gærmorgun, en þróun virkninnar bæði hvað varðar stærð, fjölda og staðsetningu jarðskjálfta er sambærileg þeirri þróun sem sést hefur áður í tengslum við kvikusöfnun í nágrenni Þorbjarnar,“ segir í tilkynningunni.

Jarðskjálftar (hringir) yfir stærð M1,5 frá miðnætti þann 3. nóvember …
Jarðskjálftar (hringir) yfir stærð M1,5 frá miðnætti þann 3. nóvember til kl. 10:45 þann 4. nóvember. Litakvarðinn til vinstri sýnir hvenær á tímabilinu skjálftarnir urðu og stærð hringjanna sýnir afstæðan mun á skjálftastærð. Staðsetningar skjálftamælistöðva (þríhyrningar) og aflögunarmælistöðva (GPS, kassar) eru einnig sýndar. Tölvuteiknuð mynd/Veðurstofa Íslands

Skjálftavirkni verði breytileg

Lovísa Mjöll Guðmundsson, náttúruásérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir í samtali við mbl.is þetta þýða það að skjálftavirknin fylgi því mynstri sem áður hefur sést við kvikusöfnun í nágrenni við Þorbjörn. Búast megi við því að skjálftavirkni verði breytileg. Hún segir kvikusöfnun hafa átt sér stað í nágrenni við Þorbjörn fimm sinnum áður á síðustu árum og þetta sé ekki ólíkt þeim tilfellum.

Virknin eftir miðnætti hefur aðallega verið við Sandhnúkagígaröðina norðaustur af Þorbirni og einnig vestan Eldvarpa. Miðað við nýjustu aflögunargögn heldur landris áfram og er talið að það sé vegna kvikusöfnunar á um 4-5 kílómetra dýpi norðvestan af Þorbirni.

Skjálftarnir í gær voru gikkskjálftar

Í tilkynningunni segir að fylgst sé náið með því hvort að skjálftavirkni fari grynnkandi, en það væri merki um að kvika væri að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Samhliða því ætti að mælast skyndileg þensla á yfirborði á GPS mælum ásamt vaxandi óróa sem eru afar tíðir og litlir skjálftar. Engir skýr merki sjást um slíkt en atburðarásin getur breyst með litlum fyrirvara segir í tilkynningunni.

„Á svæðinu við Þorbjörn, vestan og austan hans og í raun með fram flekaskilunum öllum, liggja sprungur sem stefna í suður-norður og tengjast flekaskilunum. Þær geta síðan hrokkið vegna álags frá kvikuvirkni og slíkt höfum við séð allt frá upphafi atburðarásarinnar í Fagradalsfjalli 2021. Stærri skjálftarnir í gær við Þorbjörn urðu á slíkum sprungum og við þá spennulosun getur álagið færst yfir á aðrar nærliggjandi sprungur,“ er haft eftir Benedikt Halldórssyni, fagstjóra jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands, í tilkynningunni.

„Það er sú þróun sem við virðumst vera að sjá núna varðandi skjálftavirknina í gær og í nótt. Skjálftarnir austan og vestan við kvikuinnskotið hjá Þorbirni er það sem við höfum kallað gikkskjálfta og eru viðbrögð við þeirri spennu sem kvikusöfnunin veldur,“ er haft eftir honum að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka