Stöðug skjálftahrina hefur verið í gangi á Reykjanesskaga síðustu sólarhringa, með þeim öflugri frá því að jarðhræringar hófust að nýju á svæðinu, að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, sérfræðings Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum.
Frá því klukkan 6 í gærmorgun og þar til Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi höfðu mælst um 1.500 skjálftar á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er enn grannt fylgst með stöðunni. Skjálftum fjölgaði til muna í fyrrinótt en eftir klukkan 17.30 í gær hafði virknin róast töluvert. Þó var enn stöðug smáskjálftavirkni.
Fulltrúar Veðurstofu og almannavarna koma saman til fundar klukkan 9.30 í dag til að meta stöðuna og fara yfir framhaldið.
„Ef við skoðum gögnin er líklegast að gos komi upp í grennd við þann stað sem kallast Illahraunsgígar og er vestnorðvestan við Þorbjörn. Illahraunsgígar eru líklegasti gosstaðurinn, þar er mesta landrisið og flestir skjálftarnir. Sú sprunga er á vatnaskilum, þannig að það er mjög erfitt að spá um hvert hraun myndi renna,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði, spurður hvert líklegast sé að hraun rynni ef til eldgoss kæmi norðvestan við fjallið Þorbjörn.
Hann bendir reyndar á að mögulegt sé að gossprunga teygi sig yfir vatnaskilin og þá gæti hraun runnið til tveggja átta.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.