„Hvert hraunið myndi fara ræðst mjög af því hvar sprungan yrði nákvæmlega; það gæti runnið til norðausturs í áttina að Svartsengi eða til suðurs í áttina að Grindavík. Ef gossprunga opnast á þessum slóðum þá eru bæði Svartsengi og Bláa lónið berskjölduð. Menn eru að hugsa um hvernig hægt yrði að vernda það svæði og leggja leiðigarða þannig að hægt verði að leiða hraunið frá þessum innviðum,“ segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjalla- og bergfræði í samtali við Morgunblaðið en vísindamenn skoða nú líklegustu rennslisleiðir hrauns og hvernig hægt verði að bregðast við.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að gögn sýni að líklegast er að gos komi upp í grennd við þann stað sem kallast Illahraunsgígar.
Spurður hvað Illahraunsgígar séu langt frá Grindavík annars vegar og frá orkuverinu í Svartsengi og Bláa lóninu hins vegar segir Þorvaldur að ef kvika komi upp þar sem landrisið
er mest, þ.e. við Illahraunsgíga, þá sé vegalengdin að Bláa lóninu og Svartsengi 1 til 1,5 km, heldur lengra sé til Grindavíkur, 3 til 4 km.
Fram hefur komið að efnasamsetning kvikunnar sé þess eðlis að hraun myndi renna mjög hratt yfir kæmi til goss og undir það tekur Þorvaldur. „Þetta er þróaðri kvika og og gasríkari þannig að hún getur farið hratt yfir í upphafi. Hún er líka að safnast upp tiltölulega grunnt undir svæðinu í nágrenni Þorbjarnar og er að byggja upp þrýsting. Eftir því sem ferlið stendur lengur yfir, þeim mun meiri þrýstingur byggist upp og gos yrði aflmeira og öflugri kvikustrókar í byrjun. Við vitum að þeir geta farið mjög hratt yfir í upphafi og þótt upphafsfasinn yrði ekki lengri en 15 mínútur eða klukkustund, þá geta slík hraun runnið með hraða sem nemur nokkrum tugum kílómetra á klukkustund,“ segir Þorvaldur.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.