GPS-mælingar á svæðinu í kringum fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga virðast sýna stökk í tilfærslum á svæðinu. Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir varasamt að lesa of mikið í eina tölu og segir mælingar morgundagsins munu gefa betri mynd af stöðunni.
Hægt er að lesa út úr GPS-mælingunum að hraðað hafi á landrisinu sem staðið hefur yfir síðustu daga við Þorbjörn. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands vakti athygli á stökkinu á Facebook í dag.
Spurð hvort það geti staðist, að hraðinn hafi aukist, segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, að taka verði GPS-mælingunum með fyrirvara.
Segir hún tölurnar oft eiga það til að stökkva til og frá, betra sé að nota tölurnar til að fylgjast með þróun yfir lengra tímabil. Hún segir að ef tölur morgundagsins sýni jafn mikið stökk sýni þær að hraði landrissins hafi aukist.
Útskýrir hún að nýjasti punkturinn í ritinu sé frá því í gær, punkturinn sem birtist á morgun verði því fyrir daginn í dag.
Telur hún þó líklegra að þær sýni að landrisið haldi áfram á sama hraða. Greining fyrr í dag, þar sem fleiri gögn voru keyrð með GPS-mælingum, hafi sýnt að hraði landrissins væri stöðugur.
Salóme gat sér til um að mikið sandfok og svifryk, sem hangið hefur yfir höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu, hafi áhrif á mælingarnar. Hún segir ýmisleg veðurfyrirbæri geta haft áhrif á stakar mælingar, svo sem vind, raka og úrkomu.