Rennir stoðum undir sögur af séra Friðriki

Guðmundur Magnússon sagnfræðingur segir frásögn af séra Friðriki í Morgunblaðinu …
Guðmundur Magnússon sagnfræðingur segir frásögn af séra Friðriki í Morgunblaðinu í dag vera athyglisverða. Samsett mynd

Guðmundur Magnússon sagnfræðingur telur frásögn Rúnars Guðbjartssonar, fyrrverandi flugstjóra, í Morgunblaðinu í dag renna stoðum undir frásögn í bók sinni um séra Friðrik Friðrikssonar, Séra Friðrik og drengirnir.

Rúnar ritaði grein sína í blaðið í dag og sagði þar frá upplifun sinni af séra Friðriki. Sagði hann ógleymanlegt þegar Friðrik bauð honum inn í svefnherbergi sitt og tók hann í kjöltu sína.

„Hann tók þéttingsfast utan um mig og setti vangann sinn á minn vanga og knúsaði mig og strauk ekki ósvipað því sem faðir minn gerði við mig í mikilli gleði eða sorg. Hann ræddi við mig þó nokkra stund, spurði nafns og hvar ég ætti heima, hvað væri gaman og svo framvegis,“ skrifar Rúnar. 

Atvikið ekki einstakt

Guðmundur segir í færslu á vef sínum, Skrifhús, að sér þyki lesturinn athyglisverður og staðfesta að atvikið í húsi KFUM, sem greint er frá í bók hans, sé ekki einstakt þó upplifun Rúnars virðist önnur en heimildarmanns hans.  

„Starfsmenn KFUM eða foringjar í félaginu, allt lærisveinar séra Friðriks, virðast hafa haft það fyrir sið, a.m.k. frá því að hann kom aftur heim til Íslands eftir dvöl í Danmörku á stríðsárunum, að velja ákveðna drengi til að fara eina inn í svefnherbergi hans, þar sem hann vangar þá, knúsar og strýkur. Frásögnin í bók minni er með öðrum orðum ekki einangrað atvik,“ skrifar Guðmundur. 

Hann bætir við að þegar KFUM geri upp minningu séra Friðrik hljóti félagið einni að líta í eigin barm, þó langt sé um liðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert