Rifjar upp tímann með séra Friðriki

Rúnar Guðbjartsson greinir frá dvöl sinni í Vatnaskógi í aðsendri …
Rúnar Guðbjartsson greinir frá dvöl sinni í Vatnaskógi í aðsendri grein í Morgunblaðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður sem dvaldi í sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi árið 1945 segir ógleymanlegt að hafa fengið að hitta séra Friðrik Friðriksson og fá knús hjá honum. Hann greinir frá þeirri stundu þegar séra Friðrik tók þéttingsfast utan um sig og knúsaði sig og strauk.

Rúnar Guðbjartsson, sálfræðingur og fyrrverandi flugstjóri, skrifar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag um vikudvöl sína í Vatnaskógi hjá KFUM árið 1945. Rúnar ritar greinina vegna greinar sem birtist í Morgunblaðinu 27. október um samskipti ungs drengs við séra Friðrik Friðriksson. Hann segir sér hafa verið brugðið við lestur greinarinnar.

Minnisvarði um séra Friðrik stendur við Lækjargötu.
Minnisvarði um séra Friðrik stendur við Lækjargötu. mbl.is/Hákon

Séra Friðrik Friðriksson var einn helsti ungmennafrömuður á Íslandi á fyrri hluta 20. aldarinnar og kom hann meðal annars að stofnun kristnu æskulýðssamtakanna KFUM og KFUK, en þau reka meðal annars sumarbúðir í Vatnaskógi. 

Nýverið varpaði Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, á frásögn manns sem nú er á áttræðisaldri. Segir hann frá því í bókinni Séra Friðrik og drengirnir að sér Friðrik hafi leitað á hann þegar hann var ungur drengur. 

„Hann tók þéttingsfast utan um mig“

Í grein sinni greinir Rúnar frá því að séra Friðrik hafi viljað kynnast drengjunum sem dvöldu í Vatnaskógi betur:

„Yfir morgunmatnum einn daginn tilkynnti starfsmaður að séra Friðrik langaði mikið til að kynnast okkur drengjum betur en við værum svo margir að það væri ekki hægt. Því hafði verið ákveðið að einum dreng frá hverju borði yrði boðið að heimsækja séra Friðrik í herbergið hans eftir hádegi þennan dag og mæta kl. 13.30 fyrir framan herbergið hans. Síðan benti starfsmaðurinn á einn dreng við hvert borð og sagði: Þú, þú og þú, og hann benti á mig líka, ætli við höfum ekki verið 5-6 drengir. Við drengirnir söfnuðumst saman fyrir framan herbergi séra Friðriks.“

Þegar komið var inn í herbergi séra Friðriks hafi hann boðið sér að setjast í kjöltu sína:

„Þegar ég kom inn bauð séra Friðrik mér að setjast í kjöltu sína sem ég þáði, jú, hann var séra Friðrik góði. Hann tók þéttingsfast utan um mig og setti vangann sinn á minn vanga og knúsaði mig og strauk ekki ósvipað því sem faðir minn gerði við mig í mikill gleði eða sorg.“

„En að fá að hitta séra Friðrik og fá knús hjá honum og vera með honum að syngja á skipinu á þessu sumarkveldi eru mér ógleymanlegar minningar,“ skrifar Rúnar að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert