„Það er búið að vera róleg nótt. Það róaðist töluvert í gærkvöldi,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um skjálftavirknina á Reykjanesskaga.
Alls hafa 450 skjálftar mælst á svæðinu frá miðnætti. Skjálftarnir voru flestir staðsettir austan Sýlingafells. „Þetta eru margir skjálftar en þeir eru litlir,“ segir Elísabet.
„Þetta er í raun áframhald á því sem hefur verið í gangi frá 25. september. Við sjáum að kvikusöfnun á sér áfram stað þarna á um fimm kílómetra dýpi. Þessar hrinur sem voru í gær og stærri skjálftar, það hefur dregið úr þeim, þeirri spennulosun,“ segir Elísabet enn fremur.