Ragnhildur Helgadóttir
Mikil mengun hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu í dag og í gær. Á vefnum loftgæði.is má sjá rauðar og appelsínugular merkingar víðsvegar á svæðinu.
Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir, doktor í lýðheilsuvísindum og loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að búast megi við að ástandið verði svipað næstu daga.
Ragnhildur segir loftgæðin á höfuðborgarsvæðinu síðastliðna daga vera svo vegna sandstorms. Veður hafi verið kalt og þurrt undanfarið. Hún útskýrir að það hafi í för með sér að jarðvegur á bæði Suðurlandi og hálendinu þorni upp og blási svo yfir borgina.
Ragnhildur segir umferðina einnig stuðla að vandamálinu. Svifryk hafi áhrif á loftgæðin. Sandstormurinn eigi þó mesta sök.
Aðspurð segir Ragnhildur þetta munu lagast þegar það fer að rigna eða vindáttin breytist. Nú sé norðaustanátt sem blási ryki frá hálendinu.
„Þetta er svolítið erfitt í hægum vetrarstillum þegar það er svona þurrt. Ég sé ekki í fljótu bragði að það verði einhver rigning fyrr en á fimmtudag á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún. Þetta geti því varað næstu daga.
Ragnhildur mælir með því að fólk fylgist með loftgæðum inni á loftgæði.is. Betra sé að viðkvæmir haldi sig innandyra og vari sig á að stunda líkamsrækt úti. Hún segir að betra sé að forðast að láta börn sofa úti í vagni á meðan loftgæðin eru rauðmerkt inni á síðunni.