„Þá er 30 þúsund manna samfélag heitavatnslaust“

Virkjunin í Svartsengi. Miðja landrissins er talin vera þar nærri.
Virkjunin í Svartsengi. Miðja landrissins er talin vera þar nærri. mbl.is/Hákon

Eg­ill Sig­munds­son­, sviðsstjóri raf­magns­sviðs hjá HS Veit­um, segir skorta áætlanir um hvað skuli gera ef heitavatnslaust verði á Suðurnesjum vegna mögulegs goss í grennd við Svartsengi.

„Ef að varmaframleiðsla fellur niður í Svartsengi þá er 30 þúsund manna samfélag heitavatnslaust. Ef þetta gerist þá er neyðarástand á svæðinu,“ segir Egill í samtali við mbl.is.

Egill var með erindi á upplýsingafundi í Grindavík á fimmtudag þar sem hann sagði að almannavarnir þyrftu að fara taka ástandinu alvarlega og fyrirbyggja þá hættu sem gæti skap­ast íbú­um á Suðurnesjum ef til eld­goss kæmi og virkj­un­in í Svartsengi færi und­ir.

Hann segir að þarna sé hann að vísa í skort á haldbærum aðgerðum til að hjálpa fólki ef til þess kæmi að það yrði heitavatnslaust. Ekki sé ljóst hvernig að fólk ætti að hita húsin sín og ríkið þyrfti að koma með lausnir á því áður en það verður um seinan.

Gætu þurft að redda sér hitagjöfum eins og notaðir eru í útilegum

Ef til þess kæmi að allt yrði heitavatnslaust á Suðurnesjum yrði vandasamt verk að reyna hita hús. Egill nefnir að þá þyrfti fólk eflaust að nota 3 kílóvatta hitagjafa eins og fólk notar til dæmis í útilegum.

„Eða ríkið gæti komið fyrir björgum fyrir íbúa,“ segir hann en bendir á að skortur á hitagjöfum gæti myndast og því gæti orðið erfitt fyrir fólk að tryggja sér þá.

Hann segir að um heppni sé að ræða að gos hafi hingað til ekki bitnað á mikilvægum innviðum. Hann segir að ávallt sé fundað í aðdraganda gosa um mögulegar hættur en segir skorta haldbærar aðgerðir ef til þess kemur að það gjósi á stað eins og Svartsengi.

„Svo gæti þetta komið þarna [Svartsengi], á versta stað og þá erum við bara í vondum málum“ segir Egill.

Vinna að aðgerðaráætlun

Verksvið almannavarna er breytilegt eftir mismunandi hættustigum. Nú er búið að lýsa yfir óvissustigi en Egill segir að ekki sé nóg að líta ástandið sem óvissustig og vinna bara eftir þeirri skilgreiningu.

Það sé óvissustig þegar skjálftahrina byrji í Heklu en nú sé um að ræða hálfgert neyðarstig og því þurfi að undirbúa í samræmi við það.

HS Veitur og HS Orka eru nú að vinna aðgerðaráætlun sem send verður til yfirvalda eftir helgi, sem tekur á því hvernig tryggja megi lágmarks upphitunarþörf á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert