Rýmingaráætlun gefin út fyrir Grindavíkurbæ

Rýmingaráætlun fyrir Grindavíkurbæ.
Rýmingaráætlun fyrir Grindavíkurbæ. Kort/Grindavíkurbær

Almannavarnir hafa gefið út rýmingaráætlun fyrir Grindavíkurbæ ef til eldgoss eða stórra jarðskjálfta kemur. Skýringarmynd sem fylgir með áætluninni útlistar flóttaleiðir innanbæjar sem og út úr bænum.

Þar koma fram upplýsingar um helstu stofnanir og söfnunarmiðstöðvar. Flóttaleiðir úr bænum eru um Nesveg, Grindarvíkurveg og Suðurstrandarveg.

Tekið er fram að ef til rýmingar komi muni koma boð frá Neyðarlínunni (112). Er íbúum þá skylt að rýma hús sín. Fólk skuli þá:

  • Ganga frá húsum sínum – loka gluggum, aftengja rafmagnstæki og muna eftir viðlagakassanum.
  • Yfirgefa heimili sín – Líma skal miða á áberandi stað að húsið hafi verið yfirgefið.
  • Huga að nágrönnum og samstarfsfólki ef hægt er.
  • Aka burt með aðgát.
  • Taka upp gangandi flóttafólk ef rými er í bifreiðum.
  • Hlusta á útvarp og fylgjast með fjölmiðlum.
  • Skrá sig í fjöldahjálparstöð utan Grindavíkur.

Ekki nauðsynlegt að koma við í söfnunarmiðstöðinni

Tilkynna á um þörf á aðstoð og slys í síma 112. Sé ekki símasamband skuli hvít veifa sett á hurð eða glugga.

Foreldrar eða forráðamenn skulu sækja börn sín á leik- og grunnskóla. Eru þeir hvattir til að sækja þau fótgangandi ef aðstæður leyfa.

Fjöldahjálparstöðvum verður komið á laggirnar í Reykjaneshöllinni í Reykjanesbæ, Kórnum í Kópavogi og Vallaskóla á Selfossi.

Söfnunarmiðstöð í Grindavíkurbæ verður í íþróttamiðstöðinni. Ekki er nauðsynlegt að koma við þar. Hún er helst ætluð þeim sem þurfa aðstoð við að komast út úr bænum.

Brýnt er fyrir Grindvíkingum að kynna sér þessar upplýsingar vel.

Rýmingaráætlun fyrir Grindavíkurbæ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert