Ungir Píratar eru óánægðir með stefnu stjórnvalda í menntamálum. Í tilkynningu kalla þeir eftir aukinni fjármögnun á menntakerfinu.
Þar benda þeir á að gæðum menntunar á Íslandi hafi farið hrakandi síðastliðin ár. Leggjast þeir gegn sameiningu framhaldsskóla í hagræðingarskyni.
Ungir Píratar vekja athygli á að íslensk ungmenni mælist undir meðaltali OECD-þjóða í lesskilningi og læsi á náttúruvísindum. Kemur þetta fram í PISA-könnun frá árinu 2018.
Hlutfall nemenda sem nær ekki grunnhæfni í lesskilningi er 26%. Hefur það hækkað umtalsvert en hlutfallið var 15% um aldamótin.
Telja Ungir Píratar stöðuna líklegast hafa farið versnandi síðan árið 2018 í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í málaflokknum.
Segja þeir þessar niðurstöður ekki koma á óvart sökum skorts á aðgerðum stjórnvalda í menntamálum. Nefna þeir sem dæmi þá stefnu að sameina framhaldsskóla sem fallið hefur í grýttan jarðveg meðal bæði kennara og nemenda.
Ungir Píratar segja þetta illa dulda hagræðingu og sparnað í málaflokki sem þeir segja síst af öllu þurfa minna fjármagn. Þeir krefja stjórnvöld svara um hvert eigi að setja fjármagnið eigi ekki að fjárfesta í þekkingu og reynslu næstu kynslóðar.