Úr eldhúsinu og í íslensk fiskveiðiskip

Freyr Eyjólfsson, verkefnastjóri hringrásarkerfis hjá Sorpu og Hlöðver Stefán Þorgeirsson, …
Freyr Eyjólfsson, verkefnastjóri hringrásarkerfis hjá Sorpu og Hlöðver Stefán Þorgeirsson, sérfræðingur fráveitu í nýsköpun og tækniþróun hjá Veitum. Samsett mynd

Matarolía heimilanna fær framhaldslíf sem orkugjafi íslenskra fiskveiðiskipa í gegnum samstarfsverkefni Veitna og Sorpu. 

Verkefnið Orkan úr eldhúsinu er nýtt samstarfsverkefni Veitna og Sorpu sem miðar að því að endurnýta afgangsolíu úr eldhúsinu og vernda lagnir heimilisins. Með verkefninu eru íbúar höfuðborgarsvæðisins hvattir til þess að safna afgangs matarolíu og fitu á heimilum sínum og skila á næstu endurvinnslustöð Sorpu þar sem orkan í olíunni öðlast framhaldslíf.

Íblöndunarefni og orkugjafi

Verkefnið er hluti af innleiðingu hringrásarkerfis, segir Freyr Eyjólfsson, verkefnastjóri hringrásarkerfis hjá Sorpu, en jafnframt hagsmunamál fyrir einstaklinginn þar sem olía getur eyðilagt lagnir og veitukerfi.

„Við viljum gera fólk meðvitað um áhættuna sem fylgir því að hella olíunni í vaskinn,“ segir Freyr.

Í stað þess að hella olíunni í vaskinn er fólk því hvatt til að skila henni til Sorpu þar sem hún öðlast framhaldslíf, segir hann, en það er fyrirtækið Orkey á Akureyri sem sér um að hreinsa olíuna og búa til úr henni lífdísil. Lífdísillinn er síðan notaður sem íblöndunarefni og orkugjafi á íslensk fiskveiðiskip.

Verkefnið er þó ekki nýtt af nálinni hér á landi því Akureyringar hafa tekið þátt í álíka verkefni um nokkurra ára skeið. Freyr segir það raunar hafa verið fyrirtækið Vistorka á Akureyri sem leitaði til Sorpu og hvatti til verkefnisins.

Augljóst framfaraverkefni

Sorpa fékk Veitur til liðs við sig í verkefnið, enda gríðarlegt hagsmunamál fyrir Veitur að sögn Freys. Hlöðver Stefán Þorgeirsson, sérfræðingur fráveitu í nýsköpun og tækniþróun hjá Veitum, tekur undir mikilvægi verkefnisins en segir það þó ekki svo að Veitur kvarti undan því að sinna kerfunum sínum.

„Það er svo augljóst framfaraverkefni að gera fólki þetta auðvelt. Þó það sé ekki nema fyrir þá sem hafa áhuga á því að skila olíunni, þá hefur það jákvæð áhrif fyrir alla,“ segir Hlöðver og bætir við

„Þetta er verðmæt afurð ef hún kemst til skila beint úr eldhúsunum.“

Koma í veg fyrir vandræði 

Hann segir það þó rétt að olía og fita geti storknað í lögnum, bæði í lögnum inni á heimilum fólks og í fráveitu kerfi Veitna. Slík stífla getur valdið óvæntum fyrirstöðum og jafnvel að það flæði upp úr, segir hann.

Verkefnið er þannig jákvætt á margan hátt og jafnframt „tækifæri til að koma olíunni í verð, í stað þess að láta hana valda vandræðum,“ segir Hlöðver.

Hér að neðan má sjá kynningarmyndband verkefnisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert