Hart var sótt að Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi fyrr í dag, vegna hjásetu Íslands við ályktun Jórdaníu um vopnahlé á Gasa á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í þar síðustu viku.
Þær Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, beindu báðar fyrirspurnum sínum til utanríkisráðherra og gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir að vera ekki samstíga í afstöðu sinni til atkvæðargreiðslunnar.
„Ef utanríkisráðherra segir eitt en forsætisráðherra annað, hvort gildir? Hvort gildir utanríkisstefna utanríkisráðherrans eða það sem höfuð ríkisstjórnarinnar segir í kjölfarið þegar hún lýsir opinberri andstöðu við ákvörðun utanríkisráðherra?“ spurði Kristrún.
Bjarna varð heldur heitt í hamsi við þessa spurningu Kristrúnar og sagði:
„Ég vil byrja á því að segja að það er allt of djúpt í árinni tekið og bara beinlínis rangt að sú afstaða sem birtist hjá forsætisráðherra og þingflokki Vinstri grænna sé í andstöðu við þá utanríkisstefnu sem Ísland kynnti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það sem máli skiptir hér er þá að gera grein fyrir því með hvaða hætti Ísland gerði grein fyrir sínu atkvæði á allsherjarþinginu,“ og hélt áfram:
„Ég bara kannast ekki við að það sé ágreiningur um utanríkisstefnu Íslands þó að það komi mér ekkert á óvart að menn sjái einhver pólitísk sóknarfæri í því að halda því fram.“
Bjarni spurði svo hvort stjórnarandstaðan hefði ekkert uppbyggilegra til málanna að leggja en þetta.
Því næst spurði Þorgerður Katrín: „Hvað telur hæstvirtur ráðherra að þessi samskipti, sem upplýstu mjög mikið, að ákveðin fálmkennd, vinnubrögð, brotakennd vinnubrögð varðandi stjórnsýslunnar þegar kemur að utanríkisstefnunni? Hvað hefur ráðherra lært af þessu og hvernig ætlar hann að beita sér fyrir því að við náum sem mestri samstöðu líka hér innan lands,“ þessu svaraði Bjarni og sagði:
„Þeir sjá að það er ekki sannfærandi málflutningur sem er haldið á lofti með þessum hætti og að kalla eftir því á meðan staðan er jafn alvarleg og við horfum upp á fyrir botni Miðjarðarhafs, að efna til einhverrar sérstakrar umræðu um það hvað maður hafi lært af þessum samskiptum sem að mínu mati voru bara eðlileg og í samræmi við venjur og hefðir finnst mér heldur dapurlegt, verð ég að segja.“
Bjarni sagði að Íslendingar væru mun sameinaðri heldur en sundraðir í afstöðu sinni gagnvart átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs og því bæri að vinna að því að berjast fyrir þeim sameiginlegum gildum sem við stöndum fyrir.
Enn fremur undraði Bjarni sig á viðbrögðum Íslendinga í kjölfar hjásetunnar, þar sem að við værum að skipa okkur í hóp með meirihluta Evrópuríkja og öllum Norðurlöndum að Noregi undanteknum.