Búa sig undir eldgos á Suðurnesjum

Svartsengi sveipað rökkurhúmi. Undir niðri krauma kraftar og ógna þeirri …
Svartsengi sveipað rökkurhúmi. Undir niðri krauma kraftar og ógna þeirri virkjun sem annars nýtir þá. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landris við Svartsengi á Reykjanesskaga heldur áfram á sama hraða og áður, á meðan kvika safnast undir niðri. Þar er virkjun sem útvegar heitt vatn fyrir alla íbúa Suðurnesja, um 31 þúsund manns, auk hluta rafmagns og neysluvatns.

Verið er að undirbúa flutning tveggja varaaflstöðva til Grindavíkur, ef náttúruhamfarir skyldu valda heitavatnsleysi á svæðinu.

„Stefnt er að því að flytja þær fljótlega eftir helgi,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets, en þetta er gert að beiðni dreifiveitunnar HS Veitna.

„Við erum með alls kyns viðbúnað og undirbúning, allt eftir því hvað kemur til með að gerast. Við höfum unnið með almannavörnum og fleirum við að skoða ýmsar sviðsmyndir.“

Óviðráðanlegar aðstæður

Ef heitt vatn hættir að berast um leiðslur Suðurnesja gætu leiðslurnar orðið fyrir skemmdum, þar á meðal vatnslagnir í íbúðarhúsum. Í svari HS Veitna við fyrirspurn Morgunblaðsins segir að í tilviki náttúruhamfara sé ljóst að um sé að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður sem fyrirtækið hafi ekki stjórn á.

HS Veitur beri því ekki ábyrgð á tjóni húseigenda við þær aðstæður.

„Löggjafinn hefur hins vegar brugðist við slíkum aðstæðum með sérstökum lögum um náttúruhamfaratryggingar. HS Veitur geta ekki kveðið upp úr um það hversu langt þær tryggingar ná í tilvikum sem þessum,“ segir í svarinu.

Ítarlegar er fjallað um jarðhræringar á Reykjanesskaga í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert