Vasaljós, vatn í brúsum, kerti og matvara með löngum fyrningartíma eru á lista sem björgunarsveitin Suðurnes tók saman fyrir íbúa á Reykjanesskaganum um hvernig megi undirbúa heimilið fyrir eldgos.
Í færslu sveitarinnar á Facebook segir að fyrirspurnir hafi borist undanfarna daga um hvernig íbúar geti búið sig undir mögulegt eldgos. Eins og fram hefur komið gætu íbúar á svæðinu misst bæði vatn og rafmagn fari allt á versta veg.
Í leiðbeiningum björgunarsveitarinnar Suðurnes segir að gott sé að vera með 10 lítra af vatni í flöskum og brúsum. Þeir sem eigi gæludýr gætu þurft meira magn.
Fólki er bent á að gera ráðstafanir varðandi gistingu utan svæðis sé það nokkur kostur. Foreldrum með smábörn er ráðlagt að hafast ekki við í óupphituðu húsnæði ef heitavatnið fer af.
Íbúum er bent á að kaupa ekki rafmagnsofna fyrir hvert herbergi heimilisins þar sem ekki yrði nægt rafmagn til að keyra alla þessa ofna fari allt á versta veg. „Ákveðið hvaða herbergi þið ætlið að hita og veljið lítinn rafmagnsofn í það rými.“
Ekki eigi að hamstra eldsneyti, það sé hættulegt að geyma mikið magn í heimahúsum. Þá sé nauðsynlegt að eiga vasaljós, aukarafhlöður, kerti og kveikjara.
Björgunarsveitin telur ekki þörf á því að íbúar birgi sig upp af klósettpappír en gott sé að eiga matvöru með löngum fyrningartíma. Sniðugt sé að skoða stöðuna á gasinu á grillinu þar sem ávallt sé hægt að grilla.
„Við ráðleggjum líka öllum íbúum á Reykjanesi að kynna sér þær viðbragðsáætlanir sem eru til fyrir það svæði sem við búum á.“ Björgunarsveitin telur ekki þörf á því að birgja sig upp af klósettpappír.
Þá er íbúum bent á vefsíðu Rauða krossins þar sem nálgast má upplýsingar um hvað sé gott að hafa til þriggja daga vegna hættu á náttúruhamförum.