Kvikusöfnun hraðari og meiri en áður hefur verið

Magnús Tumi með gosstöðvarnar við Litla-Hrút í bakgrunni.
Magnús Tumi með gosstöðvarnar við Litla-Hrút í bakgrunni. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að kvikusöfnunin sé bæði hraðari og meiri undir Svartsengi en áður hefur verið. Segir Magnús í samtali við mbl.is að ef kvikusöfnunin haldi áfram þá geti það endað með eldgosi, þó það sé ekki hægt að gefa sér neitt í þeim efnum.

„Því lengur sem þetta stendur yfir og því oftar sem það gerist því líklegra er að það gjósi en meirihluti innskota hættir áður en til eldgoss kemur.“

Kvika komi ekki upp öllum að óvörum

Magnús segir aðstæður þannig að þeim þurfi að gefa mjög mikla athygli. Segir hann aðstæður þarna þó töluvert mikið öðruvísi en í megineldstöðvunum okkar eins og Grímsvötnum, Heklu og víðar.

„Þetta er náttúrulega staður þar sem eru mikilvægir innviðir. Þarna er Bláa lónið og þetta er nálægt Grindavík. Ef það gýs þarna er viðbúið að það muni hafa mikil áhrif. Þarna er kvika þó að koma djúpt að en við vitum ekki hversu djúpt. Hún safnast fyrir núna í hallandi berggangi á um fimm kílómetra dýpi og hann er kannski 1-2 metrar á breidd.

Það sem er líklegast ef kvikan fer af stað þá taki það töluverðan tíma fyrir hana að komast upp til yfirborðs. Versta tilfelli eru nokkrir klukkutímar. Ef það sæjust merki um að kvika væri að brjótast upp til yfirborðs þá er komin allt önnur staða og þá yrði svæðið væntanlega lokað og rýmt. Þá er ég að tala um eins og Bláa lónið og slíkt. Það getur alveg gerst á næstunni að aðstæður þróist þannig að það sé ekki talið óhætt að nýta Bláa lónið.“

Magnús segir ekki í takt við neitt sem við höfum séð að kvika komi upp okkur algjörlega að óvörum.

Grindavík ekki í beinni hættu

Hann segir orkuverið í Svartsengi í mikilli hættu ef það gýs á þessu svæði sem og Bláa lónið en hann segir Grindavík ekki í beinni hættu.

„Það er mikilvægt að átta sig á því að ef það gýs norðvestan við Þorbjörn þá rennur það hraun ekki inn í Grindavík. Það getur farið til sjávar vestan við Grindavík miðað við þá atburðarrás sem nú er í gangi. Ef þyrfti að gera varnargarð sem héldi hraunrennslinu frá Grindavík ætti að gefast tími til þess sömuleiðis. Sjálf Grindavík er ekki í beinni hættu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka